Það er sönn ánægja að tilkynna hér að Selfoss Karfa hefur ráðið Halldór Steingrímsson í þjálfarateymi félagsins til næstu tveggja ára. Halldór verður yfirþjálfari yngri flokka og ásamt því starfi einn af þjálfurum í barna- og unglingastarfinu. Einnig verður Halldór í þjálfarateymi Körfuboltaakademíunnar  og meistaraflokks karla.

Halldór hefur langa reynslu af þjálfun og stjórnun innan íþróttahreyfingarinnar, bæði hérlendis og í Bandaríkjunum, þar sem hann menntaði sig. Hann starfaði hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis frá 2002-2019 við fjölbreytt verkefni, þjálfun, stjórnun og skipulagningu.

Keppnistímabilið 2019-2020 var hann þjálfari m.fl. karla hjá Sindra í Hornafirði í 1. deild og jafnframt yfirþjálfari yngriflokka félagsins. Á síðasta tímabili réð hann sig í Stykkishólm, stjórnaði þar yngriflokkastarfinu og þjálfaði meistarflokk kvenna.

Einnig hefur Halldór verið í þjálfarateymum KKÍ fyrir yngri landslið Íslands.

Halldór er menntaður í íþróttafræðum í Bandaríkjunum. Á árunum 1994-1998 lauk hann BSc  námi í viðskiptafræðum með áherslu á íþróttastjórnun frá Methodist College í Fayetteville og 2008-2010 stundaði hann nám við Winthorp University í Rock Hill og lauk Master of Sience gráðu í íþróttafræðum.

Það er ómetanlegt að fá slíkan vel menntaðan reynslubolta til starfa, fá aukna kjölfestu í félagið, efla til muna barna- og unglingastarfið og gera félaginu kleift að sækja enn frekar fram á öllum sviðum.

Velkominn til starfa, Halldór.