Hamar og Selfoss mættust í þriðja leik í undanúrslitaeinvígi liðanna í Hveragerði í kvöld. Skemmst er frá því að segja að Hamar var betri aðilinn og vann 11 stiga sigur, 85-74, eftir að hafa verið yfir nánast allan leikinn. Hann þrufti þó að hafa fyrir hlutunum, þriðji hluti var járn í járn, 48-48 á 23. mínútu og 63-62 eftir 28. Forskot heimaliðsins var 6 stig fyrir síðasta leikhluta, sem var Hamarsmanna. Munurinn fór minnst niður í 5 stig, 75-70, þegar um 3 mín. voru eftir en Hamar skoraði 10 gegn 4um og vann verðskuldað.

Mestu munaði fyrir Hamar frá síðasta leik að Medina fann aftur fjölina sína, skoraði 27 stig í öllum regnbogans litum, tók 5 fráköst og mataði Lutterman á öðrum 18 stigum, sem auk þess bætti fráköstin hjá sér úr 3 í 10. Pálmi Geir hirti 12 fráköst og Ragnar Jósef setti 14 stig og tók 7 fráköst.

Terrance var öflugastur Selfyssingar með 19 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Kennedy setti 17 og tók 10 fráköst, þar af 5 í sókn, og gaf 5 stoðsendingar. Kristijan skoraði líka 17 stig, Arnór Bjarki 13 og átti góðan sprett í þriðja hluta, Sveinn Búi 6 stig og Sigmar 2. 

Eftir ágætan fyrri hálfleik datt hittnin niður hjá Selfossliðinu. Þá munaði mikið um að Sveinn Búi var mjög snemma stýfður með óþarflega mörgum villum og komst fyrir vikið aldrei í góðan takt, endaði með 5 villur, og svipaða sögu var að segja af Kristijan sem var kominn með 2 villur óþarflega fljótt, þó hann lenti reyndar ekki í útilokun.

En það sem olli Selfossliðinu mestum vandræðum, og réði úrslitum, gerðist á varnarhelmingi vallarins. Okkar menn réðu lítið við „tveggja manna leik“ Medina og Luttermans. Medina ógnaði mjög af þriggjastigafæri og fór bara framhjá sínum varnarmanni ef því var að skipta, dró í sig þá sem áttu að verja körfuna og eftirleikurinn var of auðveldur fyrir hann að finna félaga í sniðskot – nú eða opinn þrist, þar sem Ragnar Jósef var skeinuhættastur með 4/9.

Harmarsliðið var með betri skotnýtingu, sem helgast fyrst og fremst af of mörgum auðveldum sniðskotum og troðslum, og vann frákastabaráttuna nokkuð létt. Aldrei þessu vant var Selfossliðið með færri tapaða bolta en andstæðingurinn (bara 12 á móti 19) og er það alla vega jákvæður punktur fyrir liðið að byggja á fyrir næsta leik, sem fer fram nk. fimmtudag, 27.05. kl. 19:15 í Gjánni.

Ef Selfoss vinnur aftur á heimavelli, og jafnar metin í 2-2, verður úrslitaleikur sunnudaginn 30.05. kl. 19:15 í Hveragerði, um það hvort liðið mætir Vestra, sem sópaði Skallagrími 3-0 eftir sigur, 101-88, í kvöld.

Tölfræðiskýrslan

ÁFRAM SELFOSS!!!