Selfoss tók á móti Sindra í Geysisbikarnum í kvöld. Leikurinn var jafn og æsispennandi nánast allan tímann, en heimamenn knúðu fram þriggja stiga sigur með tveimur síðustu körfunum, 94-91, og verða því með í bikardrættinum á morgun.

Selfoss leiddi allan fyrsta fjórðunginn, mest með 9 stigum, 17-8 eftir 5 mínútna leik en gestirnir minnkuðu muninn í 5 stig fyrir lok fjórðungsins, 24-19.

Annar leikhluti var hnífjafn og Sindri komst yfir 40-43 á 19. mínútu en Selfoss skoraði tvær síðustu körfurnar, 44-43 í hálfleik. Það sama var uppi á teningnum í þriðja hluta, allt í járnum. Selfoss var yfir 69-65 eftir 28 mínútur en Sindri skoraði 5 síðustu stigin og leiddi 69-70 fyrir síðasta fjórðung.

Gestirnir leiddu svo framan af lokahlutanum, 77-80 eftir 4 mínútur en á næstu 2 mín. skoraði Selfoss 9-2 og komst í bílstjórasætið, ef svo má segja, 86-82, og svo 89-84 þegar um þrjár mín. voru eftir. Sindri minnkaði muninn í 1 stig, 89-88 þegar innan við mínúta var eftir. Nýr leikmaður Selfyssinga, Arminas Kelmelis, setti svo risaþrist og Michael Rodriguez kórónaði frábæran leik sinn með því að stela boltanum og skora síðustu körfuna úr sniðskoti. Sindri átti tæpar 7 sekúndur til að jafna en liðið náði ekki góðu lokaskoti, sem geigaði og Selfoss fagnaði fyrsta sigrinum.

Sindri hefur komið sér upp góðu liði. Kenneth Fluellen var stigahæstur þeirra með 25 stig og Barrington Stevens þriðji skoraði 22, tók 9 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Hallmar Hallsson var sjóðheitur með 21 stig, 7/8 í þristum eða 88% nýtingu. Engin ástæða fyrir hann að skjóta af styttra færi, enda gerði hann það ekki. Gísli bróðir hans skoraði 10 og tók 5 fráköst en aðrir minna.

Fyrir Selfyssinga voru Ari Gylfason og Mike Rodriguez báðir frábærir í kvöld. Ari skoraði 30 stig og nýtti 69% skotanna, tók 5 fráköst og skilaði 32 framlagsstigum (+4 sts). Mike setti 28 stig, tók 4 fráköst og nýtti 80% skota sinna og fékk 32 framlagspunkta (+8 sts). Aðeins 1 skráð stoðsending er í minnsta lagi fyrir hann, og 6 stoðsendingar á allt Selfossliðið sömuleiðis (uppfært: 19 sts alls). Maciek skoraði 12 stig en var nokkuð lengi í gang, Snjólfur Marel skoraði 7 og tók 6 fráköst, Svavar Ingi var sömuleiðis með 7 stig og góða innkomu, Arminas skoraði 6, Björn Ásgeir setti 4 stig og tók 3 sóknarfráköst og Hlynur Freyr hjálpaði til með 5 fráköstum þó skotin hafi ekki dottið í kvöld.

Það var léttir að breyta til frá fyrri leikjum, sem hafa tapast á síðustu metrunum, og klára dæmið í jöfnum og spennandi leik. Vonandi verður það nýtilegur lærdómur fyrir framhaldið, en næst á dagskrá eru 2 heimaleikir í röð í 1. deildinni, fyrst gegn Snæfelli um komandi helgi og svo gegn Sindra í næstu viku.