Selfossliðið ók sem leið lá vestur á Ísafjörð sl. mánudag til að spila gegn Vestra í 1. deild karla. Vegur 61 á Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði var opnaður meðan beðið var í Búðardal svo liðið náði vel í tæka tíð á keppnisstað. Leikurinn var nokkuð jafn langt fram í þriðja hluta, en þá slitu heimamenn sig frá gestunum og unnu óþarflega léttan sigur, 81-60.

Vestri leiddi frá upphafi og náði 10 stiga forskoti, 25-15, fljótlega í öðrum hluta. Selfoss minnkaði þann mun í tvígang niður í þrjú stig en Vestri leiddi í hálfleik með 6 stigum, 38-32.

Selfoss byrjaði feikivel í seinni hálfleik og þjarmaði að Vestra og komst yfir í eina skiptið í leiknum eftir 6 mínútna leik, 44-45. Pétri leist ekki á blikuna, tók leikhlé og stappaði í sína menn stálinu. Selfyssingar nýttu leikhléið illa, komu illa áttaðir inn á völlinn, fylgdu ekki leikplani og fóru að tapa boltanum í gríð og erg. Sömuleiðis riðlaðist vörnin og Vestri fékk galopin skot, negldi niður einum þrem þristum á stuttum tíma og munurinn hljóp upp í 11 stig fyrir lok þriðja hluta. Í fjórða hluta náðu Selfyssingar ekki vopnum sínum, voru „flatir“ fyrir og lítið að frétta, þannig að heimamenn áttu náðugan tíma til leiksloka, léku vel og unnu síðasta fjórðunginn með 10 stiga mun.

Nebosja Knezevic, Matic Macek og Nemanja Knezevic vor bestir í liði Vestra, allir með 20+ í framlag og Toni Jelenkovic bætti við 15. Þar á eftir komu Marko Dimitrovic og Hilmir Hallgrímsson með 6 stig hvor.

Hjá Selfossi var Christo Cunningham bestur með 20 stig, 11 fráköst og 2 varin skot, 25 framlagsstig og mörg glæsileg tilþrif. Vandræði að það fást bara 2 stig fyrir troðslur!! Kristijan Vladovic setti 12 stig, Arnór Bjarki Ívarsson 8, Arnór Bjarki Eyþórsson 5 stig og 6 fráköst, Ragnar Magni 5 stig, Hlynur Logi 4, Svavar Ingi 3, Sigmar Jóhann 2 og Sveinn Hafsteinn 1 stig.

Tölfræði leiksins

Tilþrif úr leiknum

Myndasafn Önnu Ingimars, sótt af heimasíðu Vestra