11. flokkur drengja hóf keppnistímabilið þegar liðið gerði sér ferð norður til Akureyrar og mætti þar heimamönnum í Þór í tvígang um helgina.
Fyrri leikurinn á laugardag var þessi dæmigerði haustleikur, leikmenn ryðgaðir og stundum nokkrum skrefum á undan sjálfum sér. Fljótt dró þó í sundur með liðunum og okkar strákar náðu þægilegu forskoti. Heimamenn í Þór sýndu samt alltaf sannan baráttuanda og minnkuðu muninn nokkrum sinnum úr 20 stigum í 10. Í hálfleik leiddi Selfoss með 13 stiga mun.
Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og jók muninn í 25 stig, en slakaði svo fullmikið á eldsneytisgjöfinni og Þór náði að minnka muninn niður í 9 stig fyrir leikslok, 83-92.
Stigahæstir í liði Selfoss voru Fróði Larsen með 21 stig, Ari Hrannar 20, Birkir Máni og Tristan Máni 19 stig hvor.
Seinni leikurinn fór fram í hádeginu á sunnudag. Af byrjuninni mátti álykta sem svo að það væri fullsnemmt fyrir ungmennin, þar sem leikmenn beggja liða áttu erfitt með að koma boltanum í körfuna. Sú stífla brast þó okkar megin í lok fyrsta leikhluta og vörnin small saman um leið, svo Þór átti erfitt með að koma boltanum yfir miðju. Í hálfleik leiddi Selfoss 22-46 en Þórsarar komu sterkir inn í seinni hálfleik og meira jafnræði var þá með liðunum, lokatölur 62-85 og annar sigur Selfyssinga í höfn.
Stigahæstir voru Tristan Máni með 24 stig, Ari Hrannar 18, Unnar Örn 13 og Birkir Máni 12 stig.
ÁFRAM SELFOSS!!!