Það var nokkuð létt rennslið hjá Álftnesingum gegn okkar mönnum í gærkvöldi, fyrir lokasprettinn í 1. deild karla. Selfoss var 5-10 yfir í upphafi leiks en skömmu síðar var toppliðið komið með forystuna, 14-12, og lét hana ekki af hendi úr því. Mest slagaði munurinn í 30 stig seint í þriðja leikhluta en niðurstaðan 21 stigs heimasigur, 98-79.

Álftanes hafði bæði tögl og hagldir með sinn reynda leikmannahóp, sem  gekk ákveðinn til verka, fumlaust og fagmannlega. Dino Stipcic var þeirra langbesti maður, stal boltum í vörninni og tætti máttlitla liðsvörn Selfoss sundur og saman á hinum vallarhelmingnum, skoraði körfur af öllum regnbogans litum eða mataði félaga sína á galopnum æfingaskotum, sem oftast sungu í netinu. Álftanes skoraði hvorki fleiri né færri en 25 stig úr hröðum sóknum eftir tapaðan bolta Selfyssinga, og munar um minna. Stipcic skoraði 25 stig, þar af 20 í fyrri hálfleik, tók 5 fráköst og gaf 5 stoðsendingar, 36 í framlag og 26 +/-. Stojanovic setti niður sín skot og skoraði 19 stig, Eysteinn Bjarni 16 og Bowen 13 og tók 9 fráköst. Álftanes hitti 50% af þriggjastigafæri, þar af bæði Stipcic og Stojanocic 3/4 eða 75%.

Það vantaði kraft og stemmningu í Selfossliðið, vörnin var míglek og máttlítil og í sókninni urðu menn fljótt litlir gegn stífri vörn. Dómararnir leyfðu furðu miklar snertingar, en við slíkar aðstæður gagnast lítt að hörfa inn í skelina. 19 tapaðir boltar segja sína sögu. Kennedy var best tengdur, skoraði 33 stig, skaut 68% (6/9 í þristum) og tók 8 fráköst, og fylgdi vel eftir úrvals frammistöðu í síðasta leik. Arnaldur átti líka að vanda sína góðu spretti með 20 stig, 5 fráköst og frábæra skotnýtingu, en lítil ógn var af öðrum leikmönnum liðsins, eins og 2/17 eða tæp 12% nýting úr þristum vitnar um.

Ísar Freyr skoraði 8 stig og tók 5 fráköst, Gerald 7 stig og 7 fráköst, Birkir Hrafn 4 stig og 2 fráköst, Sigmar 3 stig og 3 fráköst, og Ísak skoraði 2 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 5 fráköst.

Það jákvæða sem benda má á er að allir fjórir 11. flokks strákarnir í liðinu komu inn á og eru byrjaðir að safna reynslu í bakpokann fyrir næsta og næstu tímabil. Við sveiflukenndri frammistöðu er að búast af svo ungu liði og eins víst að næsti leikur, sem er heimaleikur gegn ÍA nk. föstudag, verði syngjandi góður og skemmtilegur, því strákarnir hafa sannarlega sýnt að þeir geta betur en þeir gerðu í gær. Það þarf bara að vekja hinn innri eld og herða stálið!

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölskráningarskýrslan

Staðan