Selfoss átti ekki í vandræðum með ÍA í 1. deild karla í kvöld. Þrátt fyrir óvenjulegan leiktíma á laugardagskvöldi gerði Selfossliðið það sem þurfti, og meira til, og vann stóran sigur á lánlausum Akurnesingum, 109 – 73. leikurinn náði því aldrei að verða neitt helgarpartí, engin spenna og fremur lítil skemmtun, en þó sáust nokkur glæsitilþrif sem glöddu augað.

Selfoss tók strax öll völd og munurinn varð mestur 40 stig, 58-18, á 18. mínútu en 35 stigum munaði í hálfleik, 62-27. Þessi munur hélst svo nokkurnveginn til loka og niðurstaðan 36 stiga sigur.

Það varður að segjast að ÍA liðið var slakt í fyrrihálfleik, andleysi sveif yfir vötnum og varnarleikurinn ekki upp á marga fiska. Þetta skánaði til muna í seinni hálfleik og leikmenn létu finna meira fyrir sér. Það breytti þó engu um úrslitin, en munurinn óx þó ekki eftir hlé.

Selfossliðið verður ekki dæmt af þessum leik, til þess var mótstaðan of lítil. Í fyrri hálfleik gengu menn að vild út og suður um teig gestanna en þurftu að hafa meira fyrir hlutunum í seinni hálfleik, þegar Skagamenn tóku sig saman í andlitinu og fóru að sýna smá lit í varnarleiknum.

Nestor Saa var öflugastur Skagamanna, skoraði 19 stig og tók 12 fráköst, allt meira og minna í seinni hálfleik. Clover  skoraði 22 stig og Þórður Freyr Jónsson, kornungur og bráðefnilegur strákur, skoraði 11, mikið efni í skyttu þar á ferðinni.

Þrír leikmenn Selfoss sleiktu 40 framlagsstig. Trevon fór fremstur í flokki með 32 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar, 39 framlagspunkta. Gerald setti 31 stig, tók 19 fráköst, var með 65% skotnýtingu, þar af 4/6 í þristum og 39 framlagspunkta sömuleiðis. Gasper  skoraði 26 stig, tók 12 fráköst og nýtti 69% skota, 5/7 af þriggjastigafæri, 38 í framlag.

Þá var ánægjulegt að sjá að Óli Gunnar er smám saman að ná aftur upp orku eftir erfið veikindi og hann  átti mjög góða spretti, á þeim 16 mínútum sem hann var fær um að spila, 7 stig og 5 fráköst. Ísar Freyr er líka að koma til eftir langvarandi meiðsli og eykur breiddina til muna. Hann skoraði 2 stig, Vito 7, Styrmir 2 og Arnar Geir 2. Starri spilaði 9 mínútur og tók 2 fráköst og á eftir að gera sig gildandi í teignum með meiri styrk og reynslu.

Næsti leikur Selfoss, og jafnframt sá síðasti á þessu ári, er næstkomandi föstudag, 17. des. á Höfn í Hornafirði gegn Sindra, en þessi tvö lið eru einmitt hnífjöfn í 4.-5. sæti deildarinnar með 14 stig, 7 sigra og 5 tapleiki. Sigur austur í Hornafirði yrði skemmtilegur endir á keppnisárinu og myndi fleyta Selfossi í 4. sætið. Það verður erfitt verkefni, en ekki ómögulegt. Sjáum til með það.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræði leiksins HÉR

Staðan í deildinni HÉR