Það var líf og fjör um síðustu helgi, 25.-26. janúar, þegar 3. umferð á Íslandsmóti 8. flokks drengja í körfuknattleik fór fram, en þar gerðu strákarnir í Selfoss-Körfu góða hluti.

B – liðið spilaði í Borgarnesi þessa helgi. Drengirnir unnu sér þátttöku í d- riðli á síðasta Íslandsmóti og  mættu til leiks vel undirbúnir og harðákveðnir í að styrkja stöðu sína í nýjum riðli, meðal sterkari liða en þeir mættu í síðustu umferð. Það gerðu þeir svo sannarlega.  Spilaðir voru fjórir leikir. Einn þeirra vannst en þrír töpuðust, sumir með grátlega litlum mun. Þessi úrslit þýða að þeir spila áfram í d-riðli á næsta móti, sem er virkilega góð frammistaða.

Einbeittir og harðákveðnir í að gera sitt allra besta, mætti A-liðið að Ásvöllum í Hafnarfirði. A- liðið hefur átt nokkuð öruggt sæti í b – riðlinum síðustu misseri. Draumurinn um að komast upp í a-riðilinn hefur tvisvar nánast orðið að veruleika, en alltaf vantað herslumuninn. Með mikilli baráttu, samheldni og góðri spilamennsku náðust sigrar í öllum leikjunum fjórum. Sameiginlegt lið Hamars/Hrunamanna var sigrað með 13 stiga mun, Ármenningar með 10 stiga mun, Haukar með 9 stigum og Njarðvíkingar voru gjörsigraðir með 40 stiga mun. A-liðið mun því spila í A- riðli eftir mánuð í hópi 5 bestu liða þessa árgangs á Íslandi í dag. Draumirinn er orðinn að veruleika.

Aðdáunarvert er að fylgjast með strákunum í 8. flokki, frábærum vinskap þeirra, góðum anda og samheldni foreldra, sem fylgja þeim í hvívetna. Strákarnir eru félagi sínu og sjálfum sér til mikils sóma, innan vallar og utan.  Í þessu samhengi má ekki gleyma frábæru starfi þjálfarateymis þeirra, sem á stóran þátt í miklum áhuga þeirra og árangri.

Til hamingju strákar, með dugnað, frábæran árangur og fyrirmyndarframkomu. ÁFRAM SELFOSS!!!

-AMM