A hópur 10. flokks drengja spilaði við ríkjandi Íslandsmeistara síðustu ára, lið Stjörnunnar, í Garðabæ í gærkvöldi. Liðin hafa mæst tvisvar áður í vetur, þar sem Selfoss vann í deildinni en Stjarnan kvittaði fyrir með því að slá Selfoss út úr VÍS bikarnum í undanúrslitum keppninnar.

Leikurinn í gær byrjaði með mikilli stöðubaráttu, og jafnræði var með liðunum fyrstu 15 mínúturnar, en Selfoss seig fram úr heimamönnum í lok fyrri hálfleiks og leiddi í leikhléi með 6 stigum, 25-31.

Okkar menn náðu að stilla vel saman strengina í leikhléinu og komu af miklum ákafa inn í 3. hluta, varnarleikurinn small betur og betur saman með hverri sókn Stjörnunnar. Munurinn jókst hægt og bítandi og sóknarleikur Selfyssinga komst í takt við vörnina, var beittur og hnitmiðaður, og galopin skot fóru að detta hvert á fætur öðru. Við lok 3. hluta var munurinn orðinn 25 stig og nánast formsatriði að ljúka leiknum. Það er nú oft hættuleg staða, enda bar á smá kæruleysi og minnkaði Stjarnan muninn um 10 stig í lokafjórðungnum og lokatölur urðu 60-75.

Þetta var frábær sigur hjá strákunum okkar, sem nú hafa unnið 7 leiki í röð á Íslandsmótinu og eru vonandi að toppa á réttum tíma. Framundan er lokahnykkurinn á deildakeppninni, áður en úrstlitakeppnin tekur við.

Næst mætir liðið KR, á heimavelli okkar í Gjánni, miðvikudaginn 9. mars kl. 20:00.

Birkir Hrafn var stigahæstur Selfyssinga í gær með 14 stig. Birkir Máni og Ari Hrannar skoruðu 13, Tristan Máni 10, Gísli Steinn 8, Unnar Örn og Benjamín Rökkvi 7, Sigurður Darri 3 og Arnór Daði skilaði góðu framlagi á báðum endum vallarins, en hann fékk högg á andlitið snemma leiks og þurfti á bekkinn til að þurrka blóð en kom svo gallharður inn á aftur til að berjast fyrir sitt lið eins og honum er einum lagið. Sigurður Logi gat ekki tekið þátt að þessu sinni vegna meiðsla.

ÁFRAM SELFOSS!!!