Leikjaplan hjá 10. flokki drengja hefur verið þétt síðustu daga, nú þegar reynt er að klára alla leiki í deildakeppni Íslandsmótsins.

Síðastliðinn laugardag spiluðu bæði A og B hópar heimaleiki í Gjánni á Selfossi. B liðið reið á vaðið þegar það mætti liði Hattar frá Egilsstöðum. Fyrri leikur þessara liða var alger naglbítur en Selfoss fór með eins stigs sigur af þeim hólmi, eftir þrigjastigakörfu í lokasókninni. Nú var annað uppi á teningnum, okkar menn tóku leikinn föstum tökum nokkuð snemma. Þeir sem oft og tíðum hafa verið að skora mest í liðinu voru lengi í gang, en í staðinn stigu aðrir upp og létu til sín taka og settu persónulegt met í stigaskori, sem er ánægjulegt.

Þægilegur sigur vannst í leiknum, 79-53, og tryggði liðið sér þar með 2. sætið í sinni deild, sem er frábær árangur og ánægjulegt í meira lagi. Brenjamín Rökkvi leiddi flokkinn m eð 18 stigum, Kristófer Logi setti 15, Hjalti 13, Hjörvar 12, Sindri 8, Dagur Nökkvi 6 og Egill Baltasar 5 stig. Baldur og Böðvar skorðuðu ekki en lögðu sitt af mörkum, eins og alltaf, en með öðrum hætti.

A hópur 10. flokks mætti efsta liði Íslandsmótsins, ÍR, seinna sama dag. Fyri leiknum lauk með 2 stiga sigri ÍRinga, sem hafa verið illviðráðanlegir í vetur. Okkar menn mættu flatir og fremur orkulitlir til leiks, misstu gestina strax fram úr og eltu allan fyrsta leikhlutann. Í þeim næsta voru þeir mun einbeittari, söxuðu niður forskotið með grimmri vörn og komust yfir en í hálfleik var jafnt, 33-33.

Í seinni hálfleik tóku gestirnir aftur frumkvæðið og leystu vel úr varnartilburðum Selfossliðsins með skipulögðum og yfirveguðum sóknarleik. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðu okkar strákar ekki markmiði sínu og þurftu að sætta sig við tap, 63-68.

Það sem skilur á milli liðanna er fyrst og fremst stærð og styrkur, en þar hafa ÍRingar nokkurt forskot sem stendur, og reyndist erfitt við að eiga, því bæði tók ÍR ógrynni sóknarfrákasta og Selfossliðið þurfti frekar að hjálpa og tvídekka gegn árásum inn í teiginn, sem opnaði völlinn vel fyrir skyttur Breiðhyltinga. Að sama skapi var minni ástæða fyrir ÍR að hjálpa í teignum gegn lágvaxnari leikmönnum Selfoss, og gátu þar af leiðandi spilað þéttar gegn skyttum fyrir utan þriggjastiga línuna.

Tristan Máni var stigahæstur í Selfossliðinu með 17 stig, Birkir Hrafn skoraði 15, Birkir Máni 12, Sigurður Logi 8, Sigurður Darri 6, Hjörvar og Fróði 2 og Gísli Steinn 1 stig. Aðrir komust ekki á blað að þessu sinni.

A hópur fékk sunnudag í frí en hélt svo í Vesturbæ Reykjavíkur og mætti KR. Liðin áttust við skömmu áður, þann 9. mars, og þá sigraði Selfoss með tveimur stigum.

Í stuttu máli sagt var þetta erfitt kvöld hjá okkar strákum í Frostaskjólinu, og sennilega lakasti leikurinn af þeirra hálfu í allan vetur. KR komst strax um 10 stigum yfir og það var munurinn mest allan leikinn. Selfoss náði að minnka muninn niður í 3 stig á einum kafla leiksins en nær komust þeir ekki og annað tap staðreynd 51-62. Það kemur fyrir í þessu sporti að lið hitta á leiki og allt gengur upp, en þarna kom dagur hjá okkar frábæru strákum þar sem ekkert gekk upp, hvort sem það var varnarlega eða sóknarlega.

Birkir Hrafn var lang atkvæðamestur Selfyssinga með 23 stig.

Eftir stendur einn leikur hjá A hóp sem er útileikur við ÍR á fimmtudaginn kemur, 31. mars kl. 17:30 í Hertzhellinum í Breiðholti.

ÁFRAM SELFOSS!!