Stjórn KKÍ ákvað í dag að fella niður mótahald í öllum yngri flokkum og neðri deildum körfuboltans. Einungis Dominosdeildir karla og kvenna og 1. deild karla og kvenna eru undanþegnar þessari ákvörðun, en ákvörðun um örlög þeirra deilda verður tekin ekki seinna en nk. miðvikudag, 18. mars.

Þetta þýðir að hvorki Íslands- né deildarmeistarar verða krýndir 2020 í flokkum/deildum þar sem mótahald er fellt niður.

Stjórn Selfoss Körfu fundaði í dag og ákvað að heimila erlendum leikmönnum og þjálfara hjá félaginu að fara heim eins fljótt og kostur er. Sú ákvörðun er óháð niðurstöðu KKÍ um örlög mótahalds í 1. deild karla og mun Selfoss því leika án þeirra ef síðustu umferðir deildarinnar verða kláraðar eftir það fjögurra vikna frestunartímabil sem nú er í gildi.

Stjórn félagsins mun einnig tilkynna fyrir virkjun samkomubanns á miðnætti á morgun, sunnudag, um framkvæmd æfinga yngri flokka félagsins.

Frétt á kki.is