Selfoss tekur á móti Hamri í fyrsta leik Íslandsmótsins í ár. Það er jafnframt fyrsti mótsleikurinn í „Gjánni“, sem er gælunafnið á okkar nýja heimavelli í Íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi. Leikurinn fer fram annað kvöld, fimmtudaginn 4. október kl. 19:15.
Ekki þarf að orðlengja um stemmninguna á leikjum þessara liða undanfarin ár og má telja næsta víst að loft verði spennuþrungið annað kvöld því þessi fyrsti leikur liðanna er mikilvægur fyrir bæði lið, sem vilja auðvitað fá fljúgandi start.
1. deild karla verður sterkari nú en mörg undanfarin ár, aðeins 8 lið keppa um sæti í Dominosdeildinni og þar er valinn maður í hverju rúmi. Sú breyting hefur orðið að 4+1 reglan svokallaða hefur verið aflögð og liðin mega nú tefla fram eins mörgum erlendum leikmönnum og þeim sýnist, þó aðeins einum frá löndum utan EES.
Töluverðar breytingar hafa orðið á bæði Selfossliðinu og Hamri frá því í fyrra, margir nýir leikmenn og bæði lið hafa auk þess ráðið nýja þjálfara. Mate Dalmay stýrir nú Hamri eftir að hafa gert gott mót með Gnúpverjum í fyrra en Chris Caird tók við í vor sem þjálfari Selfyssinga.
Aðeins kostar 1.000 krónur inn á leikinn en rétt er að benda á að í miðasölunni verða líka til sölu árskort, sem gilda á alla heimaleiki í deildarkeppni leiktímabilsins, á aðeins 8.000 krónur.