Selfoss mætti Hrunamönnum á Flúðum í gærkvöld. Leikurinn var jafn allan tímann en Selfoss þó á undan að skora nánast allan leikinn, var 6-7 stigum yfir þegar best lét, þar til rétt í lokin að Hrunamenn náðu 3ja stiga forskoti, 80-77. Selfoss jafnaði 82-82 og átti síðustu sóknina en lánaðist ekki að gera út um leikinn og því þurfti að framlengja. Hrunamenn voru þá sterkari á svellinu og unnu framlenginguna 10-5.
Það var mikið óðagot í upphafi leiks. Heimamenn hittu illa en gestirnir nýttu sér það á engan hátt heldur töpuðu boltanum aftur og aftur án þess að koma skoti á körfuna, 7 tapaðir í fyrsta fjórðungi og 19 alls í leiknum sem var ekki vegna þess að varnarleikur heimamanna væri svo þrúgandi, heldur fyrst og fremst skortur á sjálfstrausti og einbeitingu. Annað dæmi um það var arfaslök vítanýting, aðeins 56%. Skotnýting Selfoss var aðeins 46% innan þriggjastigalínunnar á meðan Hrunamenn skutu 68%, enda fengu þeir of mörg ódýr sniðskot eftir tveggja manna „pick and roll“ leik þar sem Ladine naut sín vel og dældi út 12 stoðsendingum. Selfoss nýtti þriggjastigafærin ekki heldur vel, aðeins 32% skota rötuðu rétta leið. Hrunamenn voru samt slakari þar með aðeins 23% nýtingu.
Þrír menn héldu uppi leik Hrunamanna. Ladine með 20 stig og 12 stoðsendingar, Hansen setti 29 stig, tók 8 fráköst og gaf 7 stoðsendingar og Lebo skoraði 28 stig, tók 8 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Yngvi Freyr bætti við 10 stigum og 11 fráköstum og Þórmundur Smári skoraði þau 5 stig sem upp á vantar.
Það sama var uppi á teningnum hjá Selfyssingum. Trevon var stigahæstur með 30 stig og fína skotnýtingu, gaf 10 stoðsendingar og tók 4 fráköst, Gasper var framlagshæstur með 30 punkta, 20, stig og 17 fráköst og Gerald skoraði 23 stig og tók 16 fráköst.
Yngri deildin í Selfossliðinu var ekki alveg rétt stillt að þessu sinni. Ísar Freyr skoraði 9 stig og skilaði 11 framlagspunktum en -2 fyrir þær rúmu 60 mínútur spilaðaðar sem eftir er að telja má líta á sem góða innistæðu til framfara, enda stórefnilegir og metnaðarfullir strákar þar á ferð.
Það vantaði á mikilvægum köflum í leiknum að lesa betur í aðstæður, og bregðast rétt við, og þar er ekki við yngri deildina að sakast. Þegar á allt er litið var leitt að neistann skorti í Selfossliðið, að það mætti hálf linkulegt og fjarhuga, því Hrunamenn áttu þá virðingu skilda að mæta grjóthörðum og einbeittum andstæðingum.
Nú er allur tölfræðilegur möguleiki á sæti í úrslitakeppni fjaraður út, enda vann Fjölnir sinn leik í gær. Framundan eru því tveir síðustu leikirnir á þessu keppnistímabili, báðir í næstu viku. Heimsókn í Borgarnes mánudaginn 21. mars og heimaleikur gegn Álftnesingum föstudaginn 25. mars. Gaman væri að liðið biti í skjaldarrendur og sýndi eldmóð svona í lokin, burtséð frá úrslitum. Það eru fleiri ungir og efnilegir leikmenn farnir að naga þröskuldinn og verður gaman að vinna með þeim á komandi árum.
ÁFRAM SELFOSS!!!