Selfoss mætti Sindra í gærkvöldi, öðru sinni á stuttum tíma í Gjánni, nú á Íslandsmóti 1. deildar. Eftir nokkurt ströggl þar sem gestirnir voru aldrei langt undan, vannst þó öruggur 18 stiga sigur að lokum, 88-70.

Sindri var yfir 0-2 og 3-4 en Selfoss jafnaði 6-6, tók síðan forystuna og lét hana aldrei af hendi eftir það. Fjórum stigum munaði eftir fyrsta leikhluta, 23-19, og 11 stigum í hálfleik, 45-34. Selfoss komst 16 stigum yfir eftir 25 mínútur, 57-41, en í byrjun fjórða leikhluta var sá munur kominn niður í 8 stig, 65-57. Selfoss hleypti Sindramönnum þó ekkert nær, munurinn fór fljótlega upp í 15 stig og var þetta 13-16 stig það sem eftir lifði leiks og lokatölur 88-70 eins og fyrr getur.

Sindri er vel þjálfað lið og leikmenn berjast fyrir sínu en breiddin er þeirra helsti akkillesarhæll, eins og sést á því að einungis 8 leikmenn klæddu sig í búning. Hallmar Hallsson, sem raðaði þristunum í bikarviðureign félaganna, var fjarri góðu gamni og nýjasti liðsmaður Hornfirðinga, Hollendingurinn Chaed Wellian, ekki enn kominn til landsins. Mikið mæddi því á þeim fjórum mönnum sem skoruðu öll stig liðsins nema 4. Leikstjórnandi Sindra, Barrington Stevens III,  skoraði 20 stig en spilaði „bara“ tæpar 33 mínútur vegna villuvandræða og lauk leik á bekknum með 5. Kenneth Fluellen lék allar 40 mínúturnar og skoraði 19 stig, eins og Gísli Þórarinn Hallsson sem tók að auki 8 fráköst og var framlagshæstur Sindramanna með 21 í einkunn. Ivan Kekic skoraði 8 stig á aðeins rúmum 7 mínútum og Sigurður Guðni Hallsson og Auðunn Hofdal bættu við 2 stigum hvor.

Af heimamönnum var Snjólfur Marel Stefánsson áberandi bestur, kórónaði góðan leik gegn Snæfelli með úrvalsframmistöðu. Snjólfur skoraði 28 stig með 77% nýtingu (m.a. 7/9 í þristum), tók 11 fráköst (4 í sókn) og gaf 3stoðsendingar. Framlagseinkunnin 42 segir alla sögu um frammistöðu hans.

Svavar Ingi nýtti tækifærið þegar báðir miðherjarnir, sem hafa verið framar í goggunarröðinni til þessa, voru fjarverandi vegna meiðsla. Svavar skoraði 21 stig og var með fína nýtingu, spilaði 33 mín. tæpar.

Erlendu leikmennirnir, Mike Rodriguez og Arminas Kelmelis, áttu góða spretti en geta báðir betur. Mike skoraði 17 stig og gaf 6 stoðsendingar en Arminas skilaði 13 stigum og 5 fráköstum.

Björn Ásgeir skoraði 5 stig en meiddist á hné og þurfti að yfirgefa völlinn. Ari skoraði 3 stig en 10 fráköst og 5 stoðsendingar voru hans mikilvæga framlag í þessum leik. Hlynur Freyr fylgdi ekki eftir góðri hittni frá síðasta leik og setti aðeins niður 1 víti að þessu sinni.

Eftir á að hyggja var þetta enginn glansandi leikur hjá Selfossliðinu, sóknin datt á köflum niður í millifótarak og einn á einn, sem endaði oftar en ekki í ógöngum, og liðið hefði mátt frákasta betur. Með betri einbeitingu í vörninni og hraðari sóknarleik hefði þetta orðið „minna ströggl“ og skemmtilegri leikur á að horfa.

En burtséð frá því; þriðji sigurleikurinn í röð og því ber að fagna.  Þó er vissulega um að ræða sigra gegn liðunum sem ekki hafa enn unnið leik, og væntanlega þarf meira til að vinna Hött fyrir austan og Hamar í Hveragerði í næstu leikjum. En það er líka vel hægt.

ÁFRAM SELFOSS!!!

Engar myndir eru af þessum leik því myndsmiðurinn var í búning og lék nokkrar mínútur (þó þess sjáist því miður ekki merki á stattinu).

Tölfræðiskýrslan er hér!