Nýr félagi hefur bæst í glæstan hóp ungra og efnilegra leikmanna Selfoss. Það er Finley James Moss, Englendingur sem rétt nýlega er orðinn 18 ára gamall. Hann kemur til að stunda nám við Akademíu Selfoss-Körfu og bæta sig sem leikmaður áður en hann stígur á „stóra sviðið“ í boltanum, og verður um leið liðsmaður Selfoss í unglingaflokki og í leikmannahópi 1. deildarliðs Selfoss.
Finley hóf nám í Carmel College og gekk til liðs við Ormskirk St. Helens körfuboltafélagið 2018 og setti fljótt mark sitt á liðið. Hann var stiga- og frákastahæsti leikmaður U19 ára liðsins aðeins 16 ára gamall. Hann var valinn í úrvalslið Norðurdeildar ABL bæði árin sín í Carmel College með 28 stig, 14 fráköst og 26 framlagspunkta að meðaltali í leik, og spilaði flesta leiki allra í liðinu í úrslitakeppni, 16 talsins. Finley var valinn í U18 ára lið Englands í desember 2019 fyrir þriggja landa keppni Englands, Skotlands og Wales, sem var forkeppni fyrir val leikmanna í landslið Stóra-Bretlands í Evrópukeppni U18 ára.
Þjálfari Finleys í Carmel College hefur eftirfarandi að segja um leikmanninn: „Finley hefur verið mjög einbeittur við að auka getu sína og kraft. Vilji hans og dugnaður hafa skipt sköpum í því ferli að verða jafn fjölhæfur leikmaður og hann er orðinn og vel undirbúinn að stíga upp á næsta þrep. Hann varð fyrirmynd annarra í okkar prógrammi og vinnusemin gerði honum kleift að sýna stöðugleika og skila alltaf sínu. Tæpra 2 metra getur hann látið finna fyrir sér í stöðum 2-4 og á bjarta framtíð fyrir höndum. Þrátt fyrir tilboð frá skólum í Bandaríkjunum held ég að Chris Caird þjálfari, og aðstæður á Selfossi, séu rétta skrefið fyrir hann núna til að bæta sig enn frekar og undirbúa sig fyrir framtíðina og þann glæsta feril sem bíður hans, ef allt fer að óskum“.
Á Selfossi hittir Finley fyrir liðsfélaga sinn í U18 ára landsliði Englands, Owen Young, sem einnig hefur skráð sig í Akademíuna okkar á næsta skólaári.
Við bjóðum Finley James Moss hjartanlega velkominn á Selfoss.