Selfossliðið lék tvo leiki í vikunni, fyrst á Akranesi sl. mánudag í VÍSbikarnum og í gær austur í Hornafirði gegn Sindra í fimmtu umferð 1. deildar karla. Segja má að það hafi verið töluverð alda á siglingu liðsins og það hafi skoppað með henni, bæði niður í alldjúpa dali og upp á toppana. Úrslitin urðu sitt af hvoru tagi; sigur í bikarnum en tap í deildinni.

Áfram í bikarnum

Eftir að ÍA leiddi 6-5 í upphafi leiks á mánudaginn réði Selfoss ferðinni til loka. Munurinn varð mestur um 20 stig seint í öðrum fjórðungi, staðan í hálfleik 32-45, og lítið breyttist úr því. Akurnesingum tókst aldrei að setja neina spennu í leikinn og þetta var öruggt hjá okkar mönnum. Hvorki góður leikur né skemmtilegur í sjálfu sér, heimamenn án lykilmanna vegna meiðsla og veikinda en ungir strákar stóðu vaktina og stóðu sig vel. Selfossliðið náði sér ekki á neitt strik en það kom ekki að sök í þetta skiptið, úrslitin 63-77 og annar sigurinn gegn ÍA á stuttum tíma. ÍA er þó sýnd veiði en ekki gefin, þegar þjálfarinn getur stillt upp sínu sterkasta liði.

Davíð Magnússon og Lucien Christofis voru atkvæðamestir heimamanna, en athygli undirritaðs vakti 16 ára strákur, Felix Magnason, sem setti 6 stig og tók 5 fráköst og skilaði 10 framlagspunktum. Efnilegur miðherji þar á ferð.

Arnaldur Grímsson var einna atkvæðamestur í okkar liði með 15 stig og 9 fráköst og góða nýtingu, 20 framlagspunkta, Srdjan skoraði 13 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar, Gerald setti sömuleiðis 13 stig og tók 7 fráköst og Ísak Júlíus 12 stig en var frákastahæstur með 10, og því með svokallaða „tvöfalda tvennu“, 17 í framlag. Kennedy og Sigmar skorðuðu báðir 7 stig, Dusan 4, Ísar Freyr, Noah og Styrmir allir 2 stig, en Styrmir, sem nýverið hélt upp á 17 ára afmælið, bætti við 4 stoðsendingum.

Selfoss bíður það verkefni að spila við Subwaydeildarlið Hattar í 16 liða úrslitum VÍSbikarsins. Leikurinn fer fram í Gjánni mánudaginn 31. okt. kl. 19:15.

Tölfræði leiksins

 

Hausinn af í lokin gegn Sindra

Austur í Hornafirði voru Selfyssingar stirðir eftir aksturinn í upphafi leiks og illa áttaðir þannig að Sindri skoraði óáreittur auðveldar körfur úr hraðaupphlaupum, náði 10 stiga forystu snemma, 17-7. En okkar menn smurðu liðina og brýndu einbeitinguna, minnkuðu muninn í 22-20 fyrir lok fyrsta leikhluta. En það vantaði herslumuninn og Sindri leiddi allt itl loka. Sex stigum munaði í hálfleik, sem er nú ekki neitt, og allt opið. En þriðji leikhluti var ekki góður, munurinn fór heldur vaxandi og upplitið á Selfossstrákunum ekki nógu gott, verður að segja. Fimmtán stig hafði Sindri upp á að hlaupa þegar síðasti fjórðungur hófst, 71-56.

En „það var eins og skepnan skildi“, svo vitnað sé í þjóðskáldið, og með mikilli baráttu og liðsanda komst Selfoss á ágætt skrið í fjórða leikhluta, hraðminnkaði muninn þannig að hann varð aðeins 2 stig, 76-74 og 78-76, og á þessum tíma fékk Selfoss fleiri en eitt ágætt tækifæri til að jafna leikinn og taka forystu. En þau tækifæri nýttust ekki og hverju sem um er að kenna, ef einhverju, þá var hreinlega ekki nógu vel að verki staðið á þessum kafla, liðsboltinn sem hafði skilað sér í góðum skriði steingleymdist, leikmenn hölluðu sér að meiri einstaklingshyggju og tóku slæmar ákvarðanir sem leiddu þá í ógöngur og erfiðleika, og Sindri nýtti sér til að skora þær körfur á lokakaflanum sem skáru úr. Úrslitin 85-79.

Tyler Stewart (28 stig og 10 frk.), Oscar Jorgensen (21 st. og 5 sts.), Rimantas Daunys (13 st. og 7 frk.), Ebrima Demba (6 st. og 9 frk.) og Ismael Herrero Gonzalez (8 st.) fóru fyrir Horfnfirðingum með 76 af 85, eða tæp 90% af stigunum, en Sigurður Hallsson og Árni Birgir skiluðu sínum mínútum með ágætum.

Srdjan var stigahæstur í Selfossliðinu með 23 stig, 21 af þeim í fyrri hálfleik, 7 fráköst og 5 stoðsendingar. Kennedy var framlagshæstur með 22; 15 stig, 8 fráköst og fína skotnýtingu. Ísak Júlíus setti líka 15 stig, úr fallegum flotskotum eftir gegnumbrot og opnum þriggjastigaskotum. Hann var í nokkrum villuvandræðum og hefði helst þurft að spila meira en 26 mínútur.

Styrmir náði sér vel á strik í seinni hálfleik, eftir hikandi byrjun í þeim fyrri, hitti úr öllum sínum skotum, 12 stig, 2 fráköst og 12 framlagspunktar á 12 mínútum – sem er vel gert hjá ungum og vaxandi strák, sem á vonandi eftir að efl sjálfstraustið – og að fleiri mínútur fylgi í kjölfarið. Arnaldur reif sig sömuleiðis í gang í seinni hálfleik eftir brösótta byrjun og endaði með 10 stig og 8 fráköst. Ísari Freyr voru ótrúlega mislagðar hendurnar að þessu sinni í glímu sinni við körfuhringinn, en þrátt fyrir það var hann með hæsta +/- gildi Selfyssinga, eða +12, á meðan flestir hinna voru neðan frostmarks! Merkilegt nokk, en segir sína sögu. Sigmar Jóhann (2 stig) og Dusan (2 stig) bættu við því sem upp á vantar.

Það var auðvitað skarð í skjaldborg Selfossliðsins að Gerald Robinson er í leikbanni og því fjarri góðu gamni, en hann er bæði stiga- (23,7) og frákastahæsti (10,7) leikmaður liðsins. Einnig vantaði Birki Hrafn sem glímir við meiðsli.

Segja má ótrúlegt að liðinu hafi tekist að „gera þetta að leik“ í lokin, með einn reyndan leikmann og hina á „táningsaldri“ eða með litla reynslu þegar til alvörunnar kemur. Og þá er að nýta það þjóðþrifaráð, þegar leikur tapast, að vonast til að hann „fari í reynslubankann“ og að næg innistaða verði þar í næsta leik, sem er heimaleikur í Gjánni gegn Þór Ak. eftir viku, föstudaginn 28. október.

Tölfræði leiksins

ÁFRAM SELFOSS!!!