Ræktunarsamband Flóa og Skeiða skrifaði í dag undir nýjan styrktarsamning við Selfoss-Körfu til næstu þriggja ára. Ræktó hefur lengi stutt við körfuboltann á Selfossi en nýi samningurinn tryggir fyrirtækinu byrjunarliðssæti í stuðningsliðinu.

Á meðfylgjandi mynd handsala Gylfi Þorkelsson, formaður Selfoss-Körfu og Guðmundur Ármann Böðvarsson, framkvæmdastjóri Ræktó, nýgerðan samning.

Fyrirtækið er eitt hið öflugasta á landinu á sviði jarðborana. Það er með sjö jarðbora í rekstri sem geta tekist á við fjölbreytt verkefni og fyrirtækið býr því yfir víðtækri sérþekkingu á þessu sviði.

Ræktó var upphaflega sett á legg sem samvinnufélag þann 22. janúar árið 1946 og telst því í dag vera eitt elsta verktakafyrirtæki á landinu. Að stofnuninni komu bændur í fimm hreppum á því svæði sem í dag telst til Flóa og Skeiða, en hér var nánar tiltekið um að ræða einskonar samruna búnaðarfélaga sveitanna undir merki eins ræktunarsambands.

  • Gaulverjabæjarhreppur
  • Hraungerðishreppur
  • Sandvíkurhreppur
  • Skeiðahreppur
  • Villingaholtshreppur
  • Síðar meir bættust Eyrabakka- og Stokkseyrarhreppur við.

Af þessu má ætla að samvinnuhugsjónin hafi verið helsti drifkraftur sambandsins frá upphafi. 

Félagið var einn öflugasti jarðvinnuverktaki á heimasvæði sínu og byggði upp öfluga bordeild.  Verkefnin sem félagið hefur komið að eru fjölmörg og stór. 

Að lokinni endurskipulagningu rekstursins árið 2014 var jarðvinnudeildin seld frá fyrirtækinu en áherslan lögð á jarðboranir. Aðal starfsstöð félagsins er á Selfossi. 

Selfoss-Karfa lýsir yfir mikilli ánægju með svo öflugan samstarfsaðila og þakkar fyrir sig.