Ragnar Magni Sigurjónsson hefur skrifað undir samning um að leika með Selfossliðinu á komandi tímabili. Ragnar er efnilegur bakvörður/léttur framherji úr Skallagrími, sem ekki hefur fengið alvöru tækifæri hjá uppeldisfélagi sínu og leitar því á ný mið.
Ragnar er sterkur strákur, öflugur sóknarmaður og góð skytta og einnig góður varnarmaður, ekki síst á bolta. Hann er aldeilis fín viðbót í hinn unga hóp sem teflt verður fram á Selfossi á komandi tímabili.
Ragnar er 19 ára, á 20. aldursári, og er því bæði gjaldgengur í unglinga- og meistaraflokki. Hann mun hefja nám í íþróttafræðum við Háskóla Íslands í haust, jafnframt því að setja metnað sinn í körfuboltaferilinn.
Selfoss-Karfa býður Ragnar Magna velkominn á Selfoss, óskar honum góðs gengis og hlakkar til að vinna með honum.