Nú er verið að ganga frá ráðningu þjálfara yngri aldursflokka hjá félaginu og skrifuðu þrír undir samninga í vikunni. Gengið hefur verið frá ráðningu fleiri þjálfara og munu þeir skrifa undir samninga á næstu dögum, þegar þeir heimtast úr sumarfríum, og verður sagt nánar frá því hér á síðunni þegar þar að kemur.

Fyrst skal nefna að Barna- og unglingaráð hefur ráðið Karl Ágúst Hannibalsson í starf yfirþjálfara yngri flokka. Ekki þarf að fara mörgum orðum um þann feng sem í því felst fyrir félagið, en Karl Ágúst er ótvírætt maðurinn á bak við endurreisn yngriflokkanna hjá félaginu undanfarinn áratug og almennt talinn í fremsta flokki yngriflokkaþjálfara hér á landi. Kalli mun jafnframt þjálfa 11. og 12. flokk drengja, hina öflugu 2006 og 2007 árganga.

Bjarmi Skarphéðinsson verður áfram umsjónarmaður yngriflokka, en í því starfi felast öll samskipti við körfuboltasambandið, umsjón með keppnisleikjum, fjölliðamótum og almennt utanumhald um yngriflokkastarfið í samstarfi við Barna- og unglingaráð og yfirþjálfara yngri flokka. Jafnframt verður Bjarmi aðstoðarþjálfari Kalla með 11. og 12. flokk, en þeir félagar sáu einmitt saman um 10. flokk drengja í fyrra.

Arnar Logi Sveinsson er nýr í þjálfarateymi Selfoss-Körfu. Hann mun þjálfa minnibolta 8-9 ára og jafnframt sinna styrktarþjálfun iðkenda í 10. – 12. flokki. Arnar Logi er menntaður styrktarþjálfari og er ánægjulegt að fá þá þekkingu með markvissum hætti inn í þjálfarateymið til að styrkja enn frekar það góða starf sem unnið hefur verið undanfarin ár á þessu sviði. Hjartanlega velkominn, Arnar Logi!

Á meðfylgjandi myndum má efst sjá formann félagsins handsala samning við Karl Ágúst, næst handsalar yfirþjálfari yngri flokka samning við Bjarma og neðst Arnar Loga Sveinsson.

ÁFRAM SELFOSS!!!