Selfoss og Þór Akureyri mættust í 1. deild karla í dag í íþróttahúsi Vallaskóla. Leikurinn átti að fara fram í gærkvöldi en var frestað um einn dag vegna veðurs.
Selfyssingar byrjuðu leikinn af krafti og komust fljótt í stöðuna 13-3. Þá sögðu Þórsarar stopp og ekki lengra, þeir gáfu allt í botn og tóku fram úr heimamönnum. Staðan 20-25 eftir fyrsta leikhluta. Heimamenn áttu fá svör við sóknarleik gestanna, sem héldu áfram að auka forskotið jafnt og þétt. Staðan 41-49 í hálfleik.
Eftir leikhlé var sagan allt önnur. Selfyssingar komu sterkir inn úr hálfleiknum og náðu nokkuð fljótt að saxa á forskotið sem Þórsarar höfðu á þá. Leikurinn einkenndist af frábærum varnarleik og skyndisóknum þar sem heimamenn fóru sterkt upp að körfunni og uppskáru fyrir vikið. Þórsarar náðu aðeins að skora 14 stig í leikhlutanum á móti 28 stigum Selfyssinga. Í fjórða leikhluta náðu Þórsarar að minnka muninn í 4 stig þegar tvær mínútur voru eftir. Selfyssingar stóðu hins vegar í lappirnar og héldu út leikinn. Lokatölur leiksins 89-84 sigur hjá Selfyssingum.
Atkvæðamestur í liði Selfyssinga var Ty Greene með 34 stig. Næstur á eftir honum var Birkir Hrafn með 23 stig og 7 fráköst. Vojtech var með 11 stig og 8 fráköst, Ísar 11 stig, Svavar 6 stig, Ibu 2 stig og 10 fráköst og Arnór 2 stig.
Selfoss er ennþá í 9. sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Þór Akureyri. Næsti leikur liðsins er gegn Hrunamönnum og fer leikurinn fram á Flúðum, föstudaginn 9. febrúar kl. 19:15.
Hvetjum alla til að taka smá sveitarúnt og hvetja strákana okkar til sigurs!