Ákveðið hefur verið að nýta ákvæði í þriggja ára þjálfarasamningi Selfoss – Körfu og Portúgalans Rui Costa um að slíta samstarfinu. Þessi ákvörðun er tekin með miklum trega, þar sem ekki aðeins er Rui einstakur mannkostamaður og góður vinur, heldur einnig afar fær þjálfari, án vafa einn sá besti sem starfað hefur hjá félaginu þegar kemur að tæknilegri þjálfun og kennslu hinna margumtöluðu og mikilvægu „litlu hluta“, grunnþáttanna sjálfra.

Hins vegar hefur Covid 19 faraldurinn valdið slíku efnahagslegu uppnámi að fjárhagslegur grundvöllur íþróttafélaga er í algerri óvissu og félagið neyðist til að draga saman seglin, taka vonandi bara eitt skref aftur á bak til að geta tekið tvö eða fleiri fram á við í náinni framtíð. Selfoss-Karfa mun ekki gera samninga sem ekki er hægt að standa við, að bestu manna yfirsýn, og lenda í greiðsluþroti. Þá liggur fyrir að samstarfi við nágrannafélögin um keppnislið í drengja- og stúlknaflokki í akademíunni verður ekki fram haldið.

Af þessum sökum mun félagið nú endurskipuleggja starf aðstoðarþjálfara og leita leiða til að tryggja áfram bestu skilyrði fyrir faglegu starfi innan félagsins og í akademíunni.  Selfoss-Karfa mun áfram sækja fast að markmiðum sínum um að starfrækja alþjóðlega viðurkennda og eftirsótta akademíu, farmúrskarandi yngriflokkastarf og einbeita sér að uppbyggingu og þróun ungra leikmanna.

Að lokum þakkar félagið Rui Costa fyrir sitt góða starf á Selfossi þá 8 mánuði sem hann dvaldi hér, áður en verirufaraldurinn stöðvaði alla starfsemi um miðjan mars, og óskar honum gæfu og gengis í framtíðinni, jafnt í leik og starfi. Vonandi gefst annað tækifæri til samstarfs síðar.