Meistaraflokkur kvenna spilaði í kvöld á móti Snæfellingum í 5. umferð 1. deildarinnar. Leikurinn átti að byrja kl. 16 en vegna mannlegra mistaka dómara byrjaði hann ekki fyrr en um kl. 17. Leikurinn var hin fínasta skemmtun og bæði lið spiluðu af mikilli hörku.
Fyrstu tveir leikhlutarnir voru ágætlega jafnir þar sem hvorugt liðið var líklegt til að stinga hitt af en Selfyssingar virtust þó stýra leiknum og fóru inn í hálfleikinn með 7 stiga forustu, staðan 47-40. Mikið skorað í fyrri hálfleiknum.
Um miðjan þriðja leikhluta náðu gestirnir frá Stykkishólmi að jafna stöðuna í 53-53. Heimakonur pössuðu þó að gefa þeim ekki forustuna. Þær náðu að halda Snæfellingum í um það bil tíu stiga fjarlægð allt til leiksloka, þrátt fyrir hetjulegar körfur frá aðalleikmanni gestanna, Danielle Shafer, sem skoraði 43 af 76 stigum gestanna! Leikurinn endaði 88-76 fyrir okkar stelpum og annar heimasigur liðsins staðreynd.
Stigaskorið dreifðist ágætlega hjá Selfossi og voru 5 leikmenn með yfir 10 stig í leiknum. Donasja Terre Scott var með 20 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar, Eva Rún 18 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar, Perla María 17 stig og 9 fráköst, Valdís Una 15 stig, Anna Katrín 10 stig og 7 fráköst, Sigríður Svanhvít 4 stig, Eva Margrét 2 stig og Elín Þórdís 2 stig.
Næsti leikur Selfyssinga er þriðjudaginn 19. nóvember kl. 19:15 þegar liðið tekur á móti Keflavík b.
Áfram Selfoss!