Sigmar Jóhann Bjarnason hefur skrifað undir leikmannasamning og gengur til liðs við Selfoss-Körfu. Sigmar kemur frá Fjölni, fæddur 1999 og bætist því í góðan hóp leikmanna Selfoss sem enn eru á unglingaflokksaldri.
Sigmar er líkamlega sterkur strákur sem getur látið finna fyrir sér bæði í vörn og sókn. Hann eykur breiddina í hópnum og samkeppni um stöður 2-3, og hefur sýnt það í sumar að honum er full alvara í því að taka á því og bæta sig á öllum sviðum.
Sigmar er alinn upp í góðu yngriflokka- og unglingastarfi Fjölnis og veit hvað þarf til að ná árangri. Hann hefur að auki reynslu af landsliðsstarfi með U15 og U16 ára liðum Íslands.
Selfoss-Karfa býður Sigmar Jóhann velkominn í þéttan hóp ungra og metnaðarfullra stráka á Selfossi.