Selfoss lék tvo leiki í 11. flokki drengja í vikunni og niðurstaðan varð sigur og tap gegn hinum gömlu Reykjavíkurstórveldum, KR og ÍR.

Fyrri leikurinn var leikinn í vesturbæ Reykjavíkur, gegn KR í íþr.húsi Hagaskóla sem var mikið notað hús á síðustu öld en aðstaðan þar er óboðleg nú til dags. Hvað um það, Selfoss vann þennan leik auðveldlega, 70 – 108. Eins og sjá má á meðfylgjandi tölfræðiblaði kom gott framlag úr öllum áttum í Selfossliðinu.

Seinni leikurinn fór fram á heimavelli í Gjánni í kvöld, gegn ríkjandi Íslandsmeisturum ÍR. Breiðhyltingar voru með undirtökin allan leikinn þó munurinn hafi aldrei verið mikill, fór nokkrum sinnum í 10-12 stig og mest í 15 stig á tímabili, en Selfossstrákar minnkuðu muninn alltaf aftur og söxuðu hann niður í 5 stig í lokin, þó sigur ÍR hafi ekki verið í hættu. Úrslitin 101 – 106.

Þjálfararnir dreifðu mínútum vel milli strákanna en Unnar Örn var stigahæstur með 22 stig og skínandi góðan leik, bæði í vörn og sókn, hitti fyrir utan og setti líka sniðskot úr flottum gegnumbrotum. Liðið þarf ekki að hafa áhyggjur af sóknarleikunum, margir geta sett boltann í körfuna.

Það sem varð Selfossliðinu að falli var varnarleikurinn, eins og stigaskor ÍRinga gefur til kynna, gestirnir óðu t.d. í sóknarfráköstum og fengu of oft tvö tækifæri í sókn. Það munaði um að þrjá öfluga leikmenn vantaði því Birkir Hrafn, Sigurður Darri og Arnór Daði voru allir fjarri góðu gamni. En til að vinna ÍR og Stjörnuna þarf liðið að bæta varnarleikinn.

Næsti leikur liðsins er á heimavelli gegn Keflavík 26. mars kl. 13:00

ÁFRAM SELFOSS!!!