Frá síðasta innleggi hér hefur ýmislegt gengið á, sigurhrina riðið yfir að segja má, og verður gerð lausleg grein fyrir henni.
12. flokkur drengja keppti í Borgarnesi sl. þriðjudag gegn Skallagrími og vann þar góðan útisigur eftir nokkuð jafnan leik. Úrslitin 82-88, og Selfoss heldur sínu striki, 6/0 í deildarkeppninni.
Meistaraflokkur karla mætti Þór Akureyri í 1. deild karla á heimavelli í Gjánni sl. föstudag. Það varð ekki spennandi viðureign og niðurstaðan stórsigur okkar manna, 114-68.
Arnaldur Grímsson fór fyrir liðinu með frábærri skotnýtingu, 26 stigum, 4 frk. og 26 framlagspunktum. Srdjan var góður að vanda, með 18 stig, 8 frk. og 4 sts. – 26 í framlag. Birkir Hrafn og Ísak Júlíus skoruðu báðir 15 stig, Dusan 14 og tók 8 fráköst, Kennedy 8 stig, Ísar Freyr 6, Styrmir 5, Sigmar 4, Skarphéðinn Árni 3 og Noa 2 stig.
Daginn eftir mættust þessi sömu lið hér á Selfossi í ungmennaflokki, en meistaraflokkar félaganna eru að uppistöðu til ungmennaflokksleikmenn, aðeins Srdjan og Gerald í Selfossliðinu sem ekki eru enn í ungmennaflokki. Þessi leikur varð líkt og hinn fyrri nokkur einstefna að körfu Akureyringa, úrslitin 137-80 fyrir Selfoss.
Í gær, sunnudag, fékk Selfoss b svo Val í heimsókn í 11. flokki drengja. Hlíðarendapiltar áttu í vök að verjast allan tímann og Selfoss vann léttan sigur, 100-48.
Ljóst er að ekki vantaði sóknarboltann hjá Selfossliðunum, rétt tæp 110 stig skoruðu að meðaltali í liðinni viku. Ekki er þó ástæða til að ofmetnast af þessu, erfiðir leikir framundan og ekki víst að það sama verði uppi á teningnum í frásögnum af þeim.
Næstu leikir eru í kvöld. Þá mætir Selfoss a Haukum, í Hafnarfirði kl. 21:00, í 11. flokki drengja, og Selfoss tekur á móti Hetti í VÍS bikar karla kl. 19:15 í Gjánni.
Selfoss b leggur land undir fót næstu helgi og keppir gegn Þór á laugardaginn kemur, 5. nóv. og Tindastóli á sunnudaginn 6. nóv. í 11. flokki drengja. Báðir leikirnir norður í landi.
Ungmennaflokkur á næst leik sunnudaginn 6. nóv. gegn Fjölni á útivelli og 12. flokkur mætir ÍA vestur á Akranesi þriðjudaginn 8. nóvember.
Það er því nóg framundan – og svona eru allar vikur meira og minna, leikir flesta daga.
ÁFRAM SELFOSS!!!