Eftir frækna ferð og erfiðan leik vestur á Ísafirði sl. föstudagskvöld og ferðalag heim á laugardag var komið að rútuferð í Borgarnes í gær, þar sem Skallagrímur beið strákanna okkar í 16 liða úrslitum Geysisbikarsins. Selfoss veitti Dominosdeildarliði Skallagríms verðuga keppni en tapaði að lokum með 7 stiga mun 79-72.

Selfoss byrjaði betur, komst fljótlega í 3-8 en Skallagrímur jafnaði 12-12 eftir 6 mínútur. Selfyssingar héldu uppteknum hætti næstu mínútur og leiddu að loknum fyrsta fjórðungi, 22-25, og það var ekki fyrr en eftir miðjan 2. leikhluta að Skallarnir komust yfir, 34-32 og í hálfleik stóð 41-37 heimaliðinu í vil.

Skallagrímur lét forystuna ekki af hendi eftir þetta, Selfoss minnkaði í 1 stig 45-44 í byrjun seinni hálfleiks en þá hertu heimamenn á varnarleiknum, náðu þannig að koma óreiðu á sóknarleik gestanna og muninum upp í 12 stig, 58-46. Selfoss helmingaði þann mun fyrir lok þriðja leikhluta, 62-56, og ýmsir möguleikar í stöðunni. En þeir möguleikar voru ekki nýttir, Selfoss skoraði ekki körfu fyrstu 3 mínútur 4. leikhluta og munurinn þá aftur kominn yfir tuginn, 67-56. Það sem eftir lifði leiks voru heimamenn með leikinn í þokkalega öruggum höndum, þetta 8-12 stiga forystu, og Selfoss náði ekki því áhlaupi sem nauðsynlegt var; 2 góð stopp í vörninni og körfur hinum megin, kannski þristur, og allt hefði getað gerst.

Matej Buovac (20 stig, 6 frk.), Aundre Jackson (19 stig, 4 frk.) og Domogoj Samac (13 stig, 4 frk.) voru bestir í liði Skallagríms en Bjarni Guðmann (10 stig, 6 frk.) átti líka ágætan leik. Níu af tólf heimamönnum settu stig á töfluna og allir komu eitthvað við sögu.

Í liði Selfoss var Michael Rodriguez framlagshæstur með 50% nýtingu, 23 stig, 6 frk. og 4 sts. Snjólfur Marel skoraði 15 stig og tók 9 fráköst en nýtingin (29%) hefði mátt vera betri. Ari skoraði 14 stig, hitti 57% (4/7) í þristum og tók 6 fráköst. Arminas var með 11 stig og 4 frk., Svavar Ingi 4 stig og 4 frk., Hlynur Freyr 3 stig og 2 frk. og Björn Ásgeir 2 stig, 3 frk. og 3 sts.

Tölfræðisamanburður á liðunum sýnir mikinn mun, Skallagrími í hag, á tveggjastiganýtingu (65%/40%), enda fannst ritara ansi miklar og frjálslegar snertingar leyfðar á sína menn undir körfunum, í gegnumbrotum og sniðskotum. Skallagrímur hafði betur í frákastabaráttunni (43/38) og miklu munaði á stoðsendingum (27/12), enda skortir á köflum meira flæði og boltahreyfingu í sóknarleikinn, betri yfirsýn og skilning innan liðsins á að finna réttan mann á réttum stað í rétta skotinu á réttum tíma; hin gullna „aukasending“  sést ekki nógu oft heldur er tilhneiging innan liðsins ef fyrsti möguleiki í sóknarkerfinu gengur ekki að hanga á boltanum, fara einn á einn – og liðsvélin höktir.  Svo hrekkur nú í réttan gír á milli og sóknarleikurinn er þá glimrandi. En höktið þarf að minnka.

Í þessum leik, og síðustu tveimur, hefur baráttan og liðsandinn verið til fyrirmyndar og er ekki hægt annað en að hrósa strákunum fyrir að langmestu leyti ágætan varnarleik. Það er bara gott hjá 1. deildarliði að halda blússandi sóknarliði úr Dominosdeildinni í 79 stigum; ástæðan fyrir því að  Skallagrímur er ekki í toppbaráttu í Dominos, er ekki skortur á sóknarþunga.

Samandregið var þetta góð frammistaða hjá Selfossliðinu, að mestu fín vörn, baráttan til fyrirmyndar en sóknarleikinn þarf að slípa betur saman. Og liðið saknar auðvitað miðherjastöðunnar, sem gerir því erfiðara fyrir í  varnarleiknum og setur sókninni töluverð takmörk.

Nú er einn leikur eftir fyrir jólafrí: Selfoss-Fjölnir nk. föstudag, 21.12.18 kl. 19:15 í Gjánni.

ÁFRAM SELLLLLFFFOOOSSSS!!!