Um helgina voru nokkrir leikir á dagskrá hjá yngri flokkum. Bæði 9. flokks lið drengja spiluðu á laugardaginn og á sunnudeginum var röðin komin að 8. flokk drengja, 10. flokk drengja og stelpunum í minniboltanum.

Selfoss b í 9. flokknum fékk lið KR b í heimsókn kl. 13 á laugardaginn. Um var að ræða nokkuð spennandi leik framan. Þrátt fyrir að gestirnir höfðu forskot nánast frá byrjun gerðu okkar strákar nokkur góð áhlaup í leiknum og voru aldrei langt undan. Það var ekki fyrr en í lokaleikhlutanum sem lið KR náði að slíta sig frá okkar mönnum og sigra 28-44. Má segja að munurinn á liðunum hafi legið í fráköstum en KR náði ansi mörgum fráköstum á báðum endum vallarins á meðan strákarnir okkar áttu erfitt með að stíga út. Hins vegar margt jákvætt hægt að taka út úr þessum leik til þess að byggja ofan á fyrir þann næsta.

Selfoss a í 9. flokknum fékk Stjörnuna í heimsókn kl. 15 á laugardaginn og var um að ræða uppgjör tveggja efstu liðanna í 1. deildinni. Stjarnan byrjaði leikinn gríðarlega vel á meðan strákarnir okkar virtust ekki alveg tilbúnir í átökin í 1. leikhluta. Menn náðu að berja sig saman í leikhléi og leikurinn jafnaðist strax í 2. leikhluta og var járn í járn það sem eftir lifði leiks. Mikil barátta einkenndi leikinn og greinilegt að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt. Gestirnir í Stjörnunni höfðu þó að lokum sjö stiga sigur, 41-48. Að undanskildum 1. leikhluta gaf þessi leikur þó góð fyrirheit fyrir þá baráttu sem framundan er.

Á sunnudagsmorgninum fór 8. flokkurinn til Reykjavíkur þar sem þeir spiluðu á móti liði Ármanns b í Kennaraháskólanum. Eitthvað voru okkar menn þreyttir í fyrri hálfleik og voru 11 stigum undir eftir fyrstu tvo leikhlutana. Menn náðu heldur betur að stilla saman strengi sína í hálfleik og unnu 3. leikhlutann 17-0 og komnir með 6 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Þrátt fyrir áhlaup Ármanns náðu okkar menn að sigla sigrinum heim í jöfnum og skemmtilegum leik. Staðan 31-34 fyrir Selfoss.

Sameiginlegt lið Hrunamanna og Selfoss í 10. flokk karla átti enn einn stórleikinn í 2. deildinn þegar þeir heimsóttu lið Njarðvíkur seinnipart sunnudags. Enn einn sigurinn leit dagsins ljós hjá þessum snillingum í leik sem var ansi ójafn. 30 stiga sigur var raunin, 43-73 og drengirnir okkar enn taplausir í 2. deildinni að loknum átta leikjum.

Þá fóru flokkur ungra stúlkna frá okkur í heimsókn til Ármanns á sunnudaginn. Þar voru spilaðir nokkrir leikir og gleðin í hávegum höfð. Gestrisni Ármenninga alveg til fyrirmyndar og verður gaman að fá þau í heimsókn til okkar til að endurgjalda greiðann. Það voru mörg glöð andlit sem yfirgáfu Kennaraháskólann á þessum góða sunnudegi. Hér að neðan eru nokkar myndir frá heimsókninni.