Sögulegur leikur átti sér stað í gærkvöldi þegar nýstofnaður meistaraflokkur kvenna spilaði sinn fyrsta heimleik. Mikil spenna var fyrir leiknum, bæði á meðal áhorfenda og leikmanna. Líkt og svo oft áður fyrir heimaleiki félagsins voru grillaðir hamborgarar fyrir leik, algjör veisla á laugardagskvöldi. Hamborgararnir voru ekki eina veislan þetta kvöld, einnig var boðið upp á stórskemmtilegan og spennandi körfuboltaleik, svona laugardagskvöld gerast varla betri.

Bæði lið fóru vel af stað og náðu að sækja vel á körfuna og skila stigum fyrir sitt lið. Selfyssingar leiddu með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta skoruðu liðin aðeins sitthvor 12 stigin, þannig að Selfoss hélt fjögurra stiga forustu þegar gengið var inn í hálfleik.

Í þriðja leikhluta gerðu heimakonur góða tilraun til að slíta sig frá gestunum en þær voru fljótar að svara fyrir sig og koma sér aftur inn í leikinn. Nákvæmlega það sama var uppi á teningnum í þeim fjórða en þá náðu Selfyssingar stærstu forustunni í leiknum, staðan 60-50. ÍR-ingar náðu að minnka muninn niður í þrjú stig þegar rúm mínúta var til leiksloka en nær komust þær ekki. Selfyssingar voru með verkefnið á hreinu og kláruðu leikinn með því að skora úr fimm vítaskotum á lokamínútu leiksins. Fyrsti sigur Selfyssinga varð staðreynd. Lokatölur voru 65-57.

Það var alveg ljóst á upphafsmínútum að þær ætluðu sér að vinna þennan leik. Selfoss spilaði leikinn á aðeins sjö leikmönnum en það gerði hlutverk hinna ekkert síður mikilvægara. Varamannabekkurinn var til fyrirmyndar í leiknum og fagnaði hverri einustu körfu og hvöttu sínar konur áfram. Frábær stemning var í stúkunni, sem var svo sem ekkert skrítið, leikurinn var mjög spennandi og baráttuandi stelpnanna hafði smitandi áhrif á áhorfendur, eða var það kannski öfugt?

Donasja Terre Scott fór fyrir Selfoss-liðinu í leiknum og skilaði 21 stigi og 15 fráköstum í leiknum. Anna Katrín skoraði 14 stig, Eva Run 13 stig, Perla María 11 stig, Elín Þórdís 5 stig og Sigríður Svanhvít 1 stig.

Næsti leikur Selfyssinga er þriðjudaginn 5. nóvember í Dalhúsum í Grafarvogi á móti Fjölni. Það er stutt að fara til Reykjavíkur og hvetjum við alla til að gera sér ferð á leikinn. Næsti heimaleikur liðsins er 9. nóvember á móti Snæfelli.

Áfram Selfoss!

Tölfræði leiksins

Myndasyrpa