Stelpurnar í 10. flokki áttu skínandi dag sl. mánudag þegar þær mættu Vestra í þriðja skipti á stuttum tíma. Leikurinn fór fram í Gjánni á Selfossi og var fyrsti leikur í úrslitakeppninni.
Liðið okkar var nýbúið að leggja Grindavík í deildarkeppninni, eftir tvö töp gegn Vestra, og því í góðum gír og tilbúnar í úrslitakeppni. Leiknum lauk með öruggum sigri Selfoss/Hrunamanna/Hamars sem skoraði 59 stig gegn 35 stigum Vestra.
Það verður spennandi að fylgjast með stelpunum í næstu umferð úrslitakeppninnar en ekki liggur fyrir núna hvaða liði þær mæta, né hvenær sá leikur fer fram.
Myndin sem fylgir er tekin í leik liðsins gegn Vestra í Bolungarvík fyrir skemmstu.