Fyrsta keppnistörn á Íslandsmóti minnibolta 11 ára var haldin um helgina og sendir Selfoss stúlknalið til leiks í samstarfi við Hrunamenn. Mótið var haldið í Keflavík og mættu til leiks átta stelpur á laugardaginn.
 
Leikið var í D1-riðli þar sem mótherjarnir voru Snæfell og Tindastóll en á sunnudeginum mættum við KR og Val. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar stóðu sig frábærlega og enduðu jafnar í 1.-3. sæti í riðlinum með þrjá sigra og aðeins eitt tap gegn flottu liði Tindastóls.
 
Mikil gleði var hjá liðinu sem loksins gat keppt á alvöru móti eftir langt og leiðinlegt Covid hlé. Það sem gerir árangur enn skemmtilegri er að við tefldum aðeins fram tveimur stelpum sem fæddar eru 2010 en allar hinar voru að spila upp fyrir sig, þrjár fæddar 2011 og þrjár fæddar 2012. Þær yngri gáfu eldri mótherjum ekkert eftir og stóðu vel upp í hárinu á þeim með dyggri aðstoð okkar eldri leikmanna.
 
Næsta mót hjá minniboltanum er strax um komandi helgi en þá leikur minnibolti 10 ára á sínu fyrsta móti í vetur en það fer fram í Garðabæ. 
 
Á  einkennismynd fréttarinnar má sjá stelpurnar öskra stríðsöskur eftir síðasta leikinn. F.v. Siguríður Svanhvít, Karólína, Sigurdís, Telma, Hrafnhildur, Hekla og Sigríður Elva. Á myndina vantar Kolbrúnu Sunnu en hún átti ekki heimangengt á sunnudeginum.
 
Á hinni myndinni eru stelpurnar á fullu í leik gegn KR.