Það var stór stund í sögu félagsins í dag þegar nítján, segi og skrifa NÍTJÁN, drengir úr yngriflokkastarfi Selfoss-Körfu skrifuðu undir leikmannasamning við félagið. Það gerir atburðinn enn stærri að þeir eru allir með tölu úr sama árganginum, fæddir 2006 og því á 16. ári.
Þetta er langfjölmennasti og öflugasti árgangurinn í sögu félagsins og hefur hann verið meðal allra bestu liðanna á landsvísu. Félagið hefur lengi beðið eftir því að fá fleiri leikmenn úr uppeldisstarfinu upp í meistaraflokkinn og nú er komið að því að strákar úr þessum árgangi fara að tínast inn í liðið og æfingahópinn, einn af öðrum, næstu misserin og árin. Það eru því sannarlega spennandi tímar handan við hornið á Selfossi, eftir of mörg mögur ár hvað þetta varðar, þegar aðeins einn og einn leikmaður hefur komið upp í meistaraflokksliðið.
Drengirnir eru að hefja framhaldsskólanám við FSu þessa dagana og eru allir skráðir í Körfuboltaakademíuna. Þeir gera þriggja ára samning við félagið og er sameiginlegt markmið samningsaðila að vinna að því hörðum höndum að þeir nái að þroska hæfileika sína til hins ýtrasta á þessum árum, þannig að þeir fái tækifæri til að verða besta útgáfan af sjálfum sér, sem leikmenn og einstaklingar, og verði kjarninn í vonandi sigursælu liði Selfoss til framtíðar.
Þessi hópur hefur verið lengi saman, flestir notið úrvals atlætis og þjálfunar undir stjórn Karls Ágústs Hannibalssonar frá 6 ára aldri, en nokkrir bæst í hópinn síðust ár.
Á meðfylgjandi mynd eru í efri röð frá vinstri til hægri: Hannes Kristinn Ívarsson, Sindri Snær Ólafsson, Hjalti Geir Jónsson, Ari Hrannar Bjarmason, Sigurður Logi Sigursveinsson, Birkir Hrafn Eyþórsson, Kristófer Logi Jóhannsson, Fróði Larsen Bentsson og Benjamín Rökkvi Sigvaldason. Í fremri röð frá vinstri: Unnar Örn Magnússon, Böðvar Thor Guðmundsson, Dagur Nökkvi Hjaltalín Svöluson, Gísli Steinn Hjaltason, Tristan Máni Morthens, Birkir Máni Sigurðarson, Sigurður Darri Magnússon, Arnór Daði Viðarsson og Hjörvar Steinarsson. Á myndina vantar Benjamín Magnús Magnússon.