Drengirnir í 10. flokki Selfoss hófu úrslitakeppnina á sigri í gærkvöldi, líkt og stúlkurnar gerðu fyrr í vikunni. Selfoss mætti ÍA á heimavelli sínum í Gjánni, en þetta var í þriðja sinn sem liðin mætast í vetur. Engin breyting varð á niðurstöðunni í þetta skipti, frá fyrri viðureignum, og Selfoss vann öruggan sigur, 82 – 57. Lið Selfoss er þar með komið í 4-liða úrslit, sem leikin verða í lok apríl.
Leikurinn í gær fór ansi rólega af stað og taugarnar greinilega að flækjast eitthvað fyrir flestum leikmönnum. Fátt var því um fína drætti hjá okkar mönnum, meira og minna allan fyrri hálfleikinn. Akurnesingar voru öllu ferskari, unnu flesta lausa bolta og voru frekari í fráköstunum.
Um miðjan þriðja leikhluta urðu veðrabrigði og takturinn breyttist, Selfoss lokaði götum í vörninni, sem höfðu leikið hressilega, og keyrðu upp hraðann í sókninni. Samspil þessara tveggja þátta sköpuðu galopin skot og auðveldar körfur. Leikurinn fór á augabragði úr naglbít í 25 stiga forskot heimamanna og mestur varð munurinn 30 stig.
Birkir Hrafn var atkvæðamestur í stigaskori með 26 stig, Ari Hrannar skoraði 14, Tristan 12, Birkir Máni 9, Gísli Steinn 8, Fróði 6, Arnór 3 og Unnar og Sigurður Logi skoruðu báðir 2 stig.
ÁFRAM SELFOSS!!!