Selfoss vann fyrsta leikinn á nýju ári, gegn Snæfelli í Stykkishólmi sl. föstudagskvöld, lokatölur 58-72.

Þetta var leikur þar sem kappið bar tvímælalaust fegurðina ofurliði, heimastrákar voru fullir eldmóði og baráttuvilja og spiluðu afar „fasta“ vörn, svo það sé bara orðað kurteislega, og gengu „eins langt og dómararnir leyfðu“, sem var býsna langt á köflum. Fyrir vikið var lítil fagurfræði í þessum leik, þó heimamenn hafi sennilega sýnt sitt besta það sem af er í vetur.

Selfossliðið spilaði sem von var ekki við hvurn sinn fingur, miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópnum, eins og rakið hefur verið hér á síðunni, og samhæfing því lítil og menn enn að læra hver á annan, leikkerfin og hlutverk sín í liðinu. Af þessum sökum setti ágeng vörn Snæfellspilta okkar menn svolítið út af laginu, sóknarleikurinn varð stirður og flæðið um umferðaræðarnar hálfstíflað.

Snæfell komst í 8-0 og leiddi alveg fram undir lok fyrsta fjórðungs en Selfyssingar komust yfir með síðustu körfunni, 14-16. Eftir 4 mín í 2. hluta leiddi Snæfell enn, 26-25, en þá fóru gestirnir að átta sig betur á því hverjir væru með þeim í liði og tóku forystuna, 26-31 eftir 15 mínútur, og héldu henni til loka. Staðan í hálfleik var 28-37 og munurinn eftir það oftast um 10 stig, fór niður í 5 og mest upp undir 20, en Snæfell minnkaði muninn úr 53-71 í 58-72 í lokin á sk. „ruslatíma“, sem er þó enginn ruslatími, því þá fá þeir gjarnan að spreyta sig sem annars fá það ekki. Sem er mikilvægt.

Í Snæfellsliðinu er jafnræði með leikmönnum. Darrel Flake er þó óskoraður leiðtogi í þessum unga hópi, hann skoraði 14 stig og tók 13 fráköst. Dominykas Zupkauskas var öflugur með 17 stig 4 fráköst og 6 stoðsendingar og Ísak Örn Baldursson skoraði 11 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Annars var baráttuglöð liðsheild og samheldni helsta einkennið á Snæfellsliðinu.

Marvin Smith Jr. er með töluvert feitletrað á tölfræðiskýrslunni í sínum fyrsta leik með Selfossliðinu, 29 stig, 14 fráköst og hæsta framlagið, 25. Chaed Wellian skoraði 11 og tók 4 fráköst, Ari var með 9 stig, 8 fráköst og 3 stoðsendingar, Snjólfur 6 stig og 7 fráköst, Svavar 5 stig og 3 fráköst, Hlynur Freyr 4 stig og 4 fráköst, Hlynur Hreins 3 stig og 3 stoðsendingar, Sveinn Hafsteinn 3 stig og Björn Ásgeir 2 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar.

Þegar upp er staðið má segja að þetta hafi verið frekar slakur leikur af okkar hálfu, sóknarflæðið stirt og því töluvert af slæmum skotum, sem sést vel á nýtingunni. Varnarleikurinn var oftast ágætur og barátta í mönnum, sem er auðvitað grundvallaratriði.

Sem betur fer fékk liðið öfluga mótspyrnu strax í fyrsta leik með þennan leikmannahóp, fast var tekið á mönnum, og vel kom í ljós hvað þarf að bæta fyrir næsta leik – sem er gegn Sindra austur í Hornafirði nk.föstudagskvöld, 14.01. kl. 20:00.  En aðalatriðið er að sigur vannst þrátt fyrir brokkgenga frammistöðu og leikmenn og þjálfari hafa tækifæri til að „taka ýmislegt ganglegt með sér út úr þessum leik“, svo gripið sé til tískufrasanna.

Tölfræðin af kki.is er hér.