Sunnudaginn 25. nóvember tók stúlknaflokkur á móti liði Njarðvíkur hér í Vallaskóla. Þetta var síðasti leikur liðsins fyrir áramót í deildinni. Fyrsti leikhluti var nokkuð jafn þar sem gestirnir voru yfirleitt skrefinu á undan en einnig var Dagrún komin með tvær villur þegar leikhlutinn var hálfnaður og þurfti því að fara á bekkinn. Í öðrum leikhluta small vörnin betur saman og í kjölfarið kom meira flæði í sóknarleikinn sem skilaði okkar stelpum með 11 stiga forystu í hálfleik, 40-29. Í þriðja leikhluta fór sóknarleikurinn aftur að hiksta og mikið var um brot af okkar hálfu þar sem Njarðvík komst 10 sinnum á vítalínuna í leikhlutanum en það var jafn oft og í öllum hinum leikhlutunum samanlagt. Fjórði leikhluti var svo aftur einstefna eins og í öðrum leikhluta þar sem stelpurnar okkar tryggðu sér nokkuð þægilegan sigur, 78-56.
Næsti leikur liðsins er í bikarnum 16. desember þar sem þær mæta Njarðvík aftur en þá á útivelli.
Stigaskor FSu: Gígja 16 stig, Helga 16 stig, Una 16 stig, Dagrún 10 stig, Perla 10 stig, Emma 4 stig, Milena 3 stig og Margrét 3 stig.