Stúlknaflokkur FSU-Akademíu er nú búinn að leika 2 leiki á Íslandsmótinu, vinna annan heima en tapa hinum á útivelli. Eins og kunnugt er þá er FSU-Akademía sameiginlegt lið Selfoss, Hamars, Þórs og Hrunamanna og er frumraun körfuboltaakademíunnar í kvennaboltanum.
Grindavík – FSU: 76-47
Fyrsti leikurinn var í Grindavík og heimastúlkur þar syðra unnu nokkuð öruggan sigur. FSU-liðið er nýtt lið og stelpurnar rétt nýbyrjaðar að æfa saman og sást það á leik liðsins. En eins og sagt er: Fall er fararheill! og stelpurnar okkar munu slípast saman og verða góð liðsheild þegar frá líður.
FSU-Haukar: 76-75
Stúlknaflokkslið FSu-Akademíu spilaði sinn fyrsta heimaleik í Gjánni í Vallaskóla á sunnudaginn 7. október þar sem liðið tók á móti Haukum. Stelpurnar mættu gríðarlega tilbúnar til leiks og settu niður öll opin skot í byrjun leiks sem var mikil bæting frá síðasta leik þar sem mikið var um misheppnuð sniðskot og vítaskot. Leikurinn var hnífjafn allan tímann og í hálfleik munaði einungis einu stigi þar sem FSu leiddi 39-38. Stigahæstar í hálfleik voru Dagrún með 13 stig fyrir FSu og í liði Hauka var Sigrún með 17 stig.
Baráttan hélt svo áfram í síðari hálfleik þar sem FSu hélt áfram að setja niður opnu skotin sín en varnarlega áttu þær erfitt með að stoppa Sigrúnu og Stefaníu. Þegar um 10 sekúndur lifðu leiks hafði FSu þriggja stiga forystu 75-72 en þegar Una Bóel var að pressa Sigrúnu varð hún fyrir hnjaski og datt í gólfið og Sigrún komst óvölduð að þriggja stiga línunni og jafnaði leikinn þegar um 7 sekúndur voru eftir. FSu tók þá leikhlé og upp úr því fékk Helga Sóley boltann nálægt körfunni og fór upp. Hún fékk tvö vítaskot þegar 0,4 sekúndur voru eftir af leiknum og spennan gríðarleg. Fyrra vítaskotið geigaði en Helga var ísköld og setti það seinna. Haukum tókst svo ekki að ná skoti í sinni síðustu sókn og fyrsti sigur vetrarins staðreynd fyrir okkar stelpur.
Stigaskor FSu: Dagrún 17 stig, Una Bóel 16 stig, Helga Sóley 16 stig, Perla 11 stig, Gígja 8 stig, Margrét 3 stig, Hrafnhildur 3 stig og Laufey Helga 2 stig. Þess má geta að allar sem komu inn á völlinn skiluðu mjög góðu framlagi, hvort sem það var í vörn eða sókn.
Stigaskor Hauka: Sigrún 30 stig, Stefanía 29 stig, Karen 9 stig, Hildur 3 stig, Stefanía 2 stig og Svava 2 stig.
Næsti leikur er á Ísafirði á sunnudaginn:
Vestri-FSu 14.10. kl. 16:00