Selfoss fór á útivöll í gær eftir spennusigur í framlengingu á heimavelli sl. föstudag, og mætti Fjölni í Dalhúsum. Leikurinn var sveiflukenndur en Fjölnir réði lögum og lofum um miðbik hans og þó Selfoss gerði harða atlögu undir lokin var það of seint og dugði ekki til sigurs, lokatölur 77-73.

Selfoss byrjaði betur og leiddi 10-15 um miðjan fyrsta hluta og 14-22 í upphafi annars. En þá hertu Fjölnismenn varnartökin og Selfyssingar létu þröngva sér út úr öllu skipulagi, urðu hálfsmeykir og óákveðnir í öllum sínum aðgerðum. Fjölnir var kominn yfir, 25-24, strax um miðjan leikhlutann og jók svo muninn smám saman þar til hann slagaði í 20 stig seint í þriðja hluta. Sá munur sveiflaðist frá 17 og niður í 10 stig og sú var einmitt raunin þegar mínúta var eftir, 75-65 fyrir heimamenn. Selfossliðið var þegar þarna var komið sögu komið með smá blóðbragð á tennurnar en vantaði herslumuninn að jafna leikinn og þurfti að sætta sig við fögurra stiga tap, eins og fram hefur komið.

Selfossliðið á alltaf við sama vanda að etja. Menn verða litlir í sér og óákveðnir í aðgerðum, fara að reyna hluti sem þeir ráða ekki vel við, með fyrirsjáanlegum afleiðingum: töpuðum boltum, sem fóru í þessum leik aftur upp á þriðja tuginn. Inn á milli leikur liðið vel og er þá á pari við bestu liðin í deildinni, eins og dæmin sanna. En, sem sagt, liðið vinnur ekki nema því takist að skera niður tapaða bolta og leikmenn læri betur að „spila fyrir liðið“ – að nýta styrkleika sína og forðast veikleikana – allt fyrir liðið. En þetta er lærdómur sem hver og einn þarf sinn tíma til að tileinka sér, það heitir víst að „öðlast reynslu“, og svo ungt lið er ekki hokið af henni.

Það voru erlendu atvinnumennirnir í ungu liði Fjölnis sem héldu því á floti. Johannes Dolven var erfiður ljár í þúfu með 27 fráköst og 18 stig, 37 framlagspunkta og Carr setti 25 stig, gaf 5 stoðseningar og stal hvorki fleiri né færri en 8 boltum. Viktor Máni Steffensen kom næstur með 16 stig.

Terrance fór í gang síðla leiks og endaði með 20 stig og 13 fráköst, nánast á annarri löppinni eftir meiðsli í síðasta leik. Ekki síst við þær aðstæður saknaði liðið Svavars Inga, sem á við meiðsli að stríða en hefur leikið vel í miðherjastöðunni á móti Terrance. Aljaz náði sér aftur nokkuð á strik með 11 stig og 10 fráköst, 22 í framlag og Kristijan skoraði 14, tók 4 fráköst og stal 3 boltum. Ari skoraði 9 stig og skilaði 13 framlagspunktum á 13 mínútum. Þetta er þriðji leikurinn í röð sem hann er með 100% skotnýtingu og engan tapaðan bolta. Nærvera hans sést annars best í +/- dálkinum á tölfræðiskýrslunni. Sveinn Búi skoraði 6 og tók 6 fráköst, Kennedy 6 stig, Arnór Bjarki 5 og Gunnar 2 stig.

Það er leikið þétt. Á föstudaginn mætum við Vestra í Gjánni, en hann lagði Álftanes með 1 stigi í síðasta leik. Með góðri liðsheild getum við unnið öll liðin í deildinni og vonum að allt smelli saman á föstudaginn. Hver veit nema þá verði líka áhorfendur í stúkunni?

ÁFRAM SELFOSS!!!

Tölfræðiskýrslan