Sverrir Týr Sigurðsson er nýr liðsmaður Selfoss. Hann kemur frá Grindavík, þar sem hann hefur slitið skóm upp alla yngri flokka. Sverrir er 193 sm framherji og segja má að hann „spili upp fyrir sig“, því hann er mest í baráttunni undir körfunum og kann best við sig í atinu þar. Hann er líka ágæt skytta og getur sett’ann af þriggjastiga færi.
Þó Sverrir sé einungis 22 ára gamall er hann í hópi elstu manna í liðinu og nánast eins og þriðji þjálfarinn á gólfinu, því hann lætur heyra vel í sér, hvetur menn og leiðbeinir, og er því ómissandi í leikmannahópnum.
Svavar Ingi Stefánsson skrifaði nýverið undir nýjan samning við sitt heimalið. Þennan 205 sm. og 26 ára gamla „öldung“ í liðinu þarf ekki að kynna fyrir heimamönnum.
Hann hefur leikið allan sinn feril á Selfossi, frá 16 ára aldri í m.fl. og hátt á þriðja hundrað leiki fyrir félagið – og gæti þess vegna haldið áfram næsta áratuginn.
Svavar verður í eitthvað breyttu hlutverki í vetur, hann er tiltölulega nýbakaður faðir og í annasömu starfi að auki, en mun leggja sitt af mörkum til liðsins eins og endranær, enda með Selfosshjartað á réttum stað.