Selfoss fékk sterkt og vel mannað lið Hamars í heimsókn í gærkvöld í 1. deild karla. Þrátt fyrir að liðin séu hvort á sínum enda stigatöflunnar var ekki að sjá slíkan himinhrópandi getumun á þeim og leikurinn var lengst af jafn. Hamar náði mest 11 stiga forystu í upphafi 2. leikhluta en Selfoss jafnaði það út og komst 4 stigum yfir, 40-36 í upphafi seinni hálfleiks. En Hamar var sterkari á lokasprettinum, náði 10 stiga forystu, 61-71 þegar mínúta var eftir og það dugði til sigurs, 64-71.
Þegar litið er yfir samanburðinn á liðunum á tölfræðiskýrslunni sést að Selfossliðið var með betri skotnýtingu, vann frákastabaráttuna og gaf fleiri stoðsendingar. Hins vegar kostaði 21 tapaður bolti Selfyssinga mikið, jafnvel sigurinn. Það ætlar að verða dýr lexía hjá okkar mönnum að læra að senda boltann á næsta fría mann í upplögðu skotfæri í stað þess að þröngva honum á stífdekkaða menn inni í teig, eða dripla með hann í ógöngur.
Nú höfum við tapað fyrir öllum þremur toppliðunum með svipuðum hætti, Álftanesi, Breiðabliki og Hamri, þar sem allt hrekkur í baklás á lokakaflanum, eftir ágæta frammistöðu fram að því, og teknar eru slæmar ákvarðanir þegar einfaldleikinn er árangursríkastur.
Það jákvæða í leik Selfoss var varnarleikurinn. Hamar skorar meira en 100 stig að meðaltali og því má segja að það sé vel gert að halda honum í 71 stigi. En að sýna slíka gestrisni að gefa andstæðingunum 21 aukasókn, án þess að koma skoti á körfuna sjálfir, er velvild sem leikmenn Selfoss hafa ekki efni á.
Ari, Sveinn Búi og Aljaz voru allir með úrvalsskotnýtingu. Sveinn bætti við 8 fráköstum og Aljaz 11, ásamt 19 stigum og besta framlaginu. Terrance daðraði við þrefalda tvennu með 12 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. En „stóra planið“ hjá þjálfarateyminu, og leikmönnunum sjálfum, hlýtur að vera að skoða liðinn „TB“ og finna leiðir til að skera niður „framlagið“ þar. Að öðrum kosti er hætt við því að sigurleikjum fjölgi seint. Sagt er að mistök séu til að læra af þeim, og lengi má afsaka sig með því að liðið sé ungt og reynslulítið, en nú er bara komið að því að sýna að lærdómur hvað þetta varðar síist inn. Þá fer eitthvað skemmtilegt að gerast.
ÁFRAM SELFOSS!!!
Myndasafn Björgvins Rúnars Valentínusarsonar úr leiknum.