Selfoss fékk Ármann í heimsókn í Gjána í gærkvöld í 1. deild karla. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, hvort um sig með 4 sigra, en Selfoss hafði tapað fjórum, sem var einum leik meira en Ármenningar höfðu lotið í gólf. Því var ljóst að búast mátti við jöfnum og spennandi leik. Sem varð raunin, því 8 sinnum var jafnt og 9 sinnum skiptust liðin á forystu, eingöngu þó fyrstu fimm og síðustu fimm mínútur leiks.
Jafnt var á öllum tölum í upphafi en frá 4. mínútu og allt fram á þá 34. leiddi Selfossliðið, þó aldrei meira en 10-12 stigum. Ármenningar komust yfir, 68-69 þegar 5 mínútur voru eftir, en heimamenn gerðu vel á lokakaflanum og tryggðu ánægjulegan sigur, 87-81. Greinilegt að leikmenn hafa ekki látið nýjustu vendingar í hópnum skemma fyrir sér gleðina, þegar annar tveggja reynslubolta liðsins hvarf fyrirvaralítið á braut, heldur blásið út kassann og „klárað dæmið“ á tvísýnum lokamínútum.
Það er ánægjulegt að sjá í leikmannahópi Selfoss þrjá stráka úr 2006 árganginum okkar og tvo fædda 2005. Flestir hinna eru líka um eða undir tvítugu. Og það er ekki leiðinlegt að segja frá því að bæði stiga- og framlagshæsti leikmaðurinn okkar í þessum leik er aðeins 15 ára: Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 22 stig, skaut 6/9 af þriggjastigafæri, tók 4 fráköst, stal 2 boltum, gaf 2 stoðsendingar og skilaði 25 framlagsstigum. Ekki dónalegar tölur það!!!
Fleiri ungir stríðsmenn í okkar liði halda áfram að gera það gott. Arnaldur Grímsson var næst framlagshæstur leikmanna með 22 punkta, 20 stig, flotta skotnýtingu og 6 fráköst, og Ísak Júlíus saumaði 21 framlagspunkt úr 14 stigum, 4 fráköstum og 7 stoðsendingum. Magnaðir strákar, alveg hreint, Arnaldur nýorðinn tvítugur og Ísak 19 ára, og eiga bara eftir að bæta sig, enda skilar rúmur spilatími framförum, eins og alkunna er.
Okkar eini gamalreyndi leikmaður, Gerald Robinson, fiskaði á svipuðum slóðum og unglingarnir, átti góðan leik; 21 í framlag, 20 stig, 3 stoðsendingar og 12 fráköst. Dusan vex með hverjum leik, 6 stig og 5 fráköst á 11 mínútum, Kennedy skoraði 3 og Ísar Freyr 2 stig, 3 frk. og 3 sts. og 7 í frl.
Hjá Ármenningum var Austin Bracy stigahæstur með 17 stig, Illugi Steingrímsson skoraði 15, Arnór Hermannsson 14 og gaf 9 stoðsendingar og William Thompson setti 12 stig.
Það er forvitnilegt að skoða tölfræðisamanburð liðanna í deildinni. Selfossliðið hefur skorað að meðaltali næst flest stig allra liðanna (93,7) og fengið á sig næst fæst stigin (85,6), sem bendir til þess að liðið sé að gera eitthvað rétt bæði í vörn og sókn. Þá er ánægjulegt að sjá að liðið ver enn heimavöll sinn, og hefur tækifæri til að hækka sigurhlutfallið í Gjánni í 5/0 í næsta leik föstudaginn 25. nóvember þegar það mætir Fjölni.
ÁFRAM SELFOSS!!!