Nú er allt yngriflokkastarfið komið á fullan skrið, æfingar í öllum flokkum hófust sl. mánudag, 22. ágúst. Því er vitaskuld búið að ganga frá ráðningu allra aðalþjáflara. Þegar hafa þrír af þeim verið kynntir hér á síðunni og nú verður bætt úr með kynningu á þeim sem enn eru ókynntir.

Fyrsta í þeim hópi skal nefna Hörpu Reynisdóttur. Harpa er sjálf fyrrum leikmaður og veit upp á hár hvað hún syngur þegar kemur að körfubolta. Hún hefur einnig góða reynslu sem þjálfari og var meðal annars í þjálfarateymi Selfoss fyrir fáum árum síðan. Eftir nokkurra ára hlé kemur hún fersk til baka og tekur að sér þjálfun yngstu barnanna, minnibolta 5-7 ára. Með henni í þessu mikilvæga verkefni verður reynsluboltinn Karl Ágúst, þannig að ekki verður töluð vitleysan á æfingum hjá okkar yngsta fólki. Félagið er himinlifandi að fá Hörpu aftur til starfa.

Næstan má nefna Davíð Ásgrímsson. Davíð er margreyndur þjálfari, af miklum körfubolta- og þjálfaraættum í Hafnarfirði. Davíð spilaði með Haukum fyrr á árunum og hefur þjálfað þar í Hafnarfirði, og hjá fleiri félögum á höfuðborgarsvæðinu, árum saman. Hann er nú kennari við Sunnulækjarskóla á Selfossi og það er sannkallaður hvalreki fyrir Selfoss-Körfu að fá hann inn í félagið. Davíð mun þjálfa fjölmennan og öflugan hóp í 7. og 8. flokki drengja og stúlkna. Velkominn á Suðurlandið, Davíð!

Að lokum er kynntur til sögunnar Christopher William Caird, oftast kallaður Chris. Chris er aðalþjálfari meistaraflokks karla og yfirkennari körfuboltaakademíunnar. Hann hefur jafnframt mikla reynslu sem yngriflokkaþjálfari, á Selfossi, hjá Tindastóli og Umf. Hrunamanna, svo eitthvað sé nefnt. Chris verður í vetur aðalþjálfari minnibolta 10-11 ára drengja.