Í dag var tilkynnt um val á 20 manna æfingahópum karla og kvenna fyrir U20 ára landslið Íslands. Þar á meðal eru tveir strákar frá Selfoss Körfu, þeir Bergvin Einir Stefánsson og Arnór Bjarki Eyþórsson. Selfyssingarnir eru því orðnir þrír í æfingahópum yngri landsliða fyrir komandi verkefni í vor og sumar, en áður hafði verið tilkynnt um, og sagt frá hér á síðunni, val Rebeccu Jasmine Vokes-Pierre í U15 ára æfingahóp kvenna.
U20 liðin taka þátt í Evrópukeppni í sumar (FIBA European Championship), strákarnir í Georgíu í júlí og stelpurnar í Ísrael í ágúst.
Bergvin er uppalinn hjá Njarðvík en kom í fyrra til okkar á lánssamningi. Hann skipti svo yfir í Selfoss í sumar og er lykilmaður í sterku unglingaflokksliði Selfoss/Hmarars/Hrunamanna, en leikur einnig með mfl. liðinu í 1. deild karla. Bergvin er hagvanur í U20 ára
landsliðinu, lék með því á mótum sl. sumar.
Svipaða sögu má segja af Arnóri Bjarka, hann er mikilvægur hlekkur í u.fl. liðinu og einnig í Selfossliðinu í m.fl. karla. Arnór hefur ekki áður tekið þátt í verkefnum yngri landsliða en stífar sumaræfingar og áframhaldandi vinnusemi í allt haust hafa skilað sér í miklum framförum og í framhaldinu tækifæri til að spreyta sig á æfingum með efnilegustu leikmönnum landsins – og að tryggja sér sæti í liðinu.
Arnór Bjarki og Rebecca koma bæði úr yngriflokkastarfinu á Selfossi og er sérlega ánægjulegt að það góða starf sem Karl Ágúst hefur stjórnað undanfarin ár sé farið að bera ávöxt.
Það er orðið nokkuð langt síðan við höfum átt fulltrúa í landsliðshópum og því erum við afar stolt af þessum ungmennum okkar. Til hamingju, öll þrjú.