Þrír leikmenn Selfoss voru á dögunum valdir í U16 ára landslið Íslands sem tekur þátt í Norðurlandamóti síðar í þessum mánuði og EM seinna í sumar. Margir fleiri drengir úr 2006 árganginum hafa verið í og viðloðandi æfingahópinn í ár og undanfarin ár en niðurstaða þjálfarans var að velja þrjá í sinn lokahóp.
Það eru þeir Ari Hrannar Bjarmason, Birkir Hrafn Eyþórsson og Tristan Mortens sem verða fulltrúar Selfoss í landsliðstreyjunni í sumar.
Það er ekki á hverju ári sem lítil félög eiga fulltrúa í landsliði, hvað þá þrjá í sama aldursflokknum, og hefur ekki borið við hér í bæ síðan þrír leikmenn úr ’85 árganginum voru í landsliði.
Þess ber að geta að enn hefur ekki verið tilkynnt um endanlegt val á landsliði U20, en þar á Selfoss tvo fulltrúa í stærri æfingahóp og gæti vel farið svo að fleiri landsliðsmenn bætist í hópinn.
Félagið er auðvitað rífandi stolt af þessum árangri „strákanna okkar“. Til hamingju, drengir!!!