Þrír ungir og ferskir leikmenn skrifuðu undir leikmannasamninga hjá Selfoss-Körfu á dögunum, allt strákar rétt um tvítugt sem hafa metnað til að ná árangri.

Fyrstan skal telja Sigmar Jóhann Bjarnason sem tekur nú þriðja árið í herbúðum Selfoss. Sigmar er leikmaður af þeirri gerð sem öll lið þurfa að hafa í sínum leikmannahópi, ósérhlífinn og baráttuglaður stríðsmaður. Hann er ’99 árgerð en hefur verið ákveðin andleg kjölfesta í liðinu, þrátt fyrir ungan aldur, og er þeim meginkosti búinn að geta leyst nánast alla leikmenn af hólmi, hvaða stöðu á vellinum sem um ræðir. Því er afar ánægjulegt að hann hafi ákveðið að standa áfram í stafni.

Óli Gunnar Gestsson er 18 ára framherji, uppalinn í KR þar sem hann lék alla yngri flokkana og á einnig leiki með meistaraflokki Vesturbæjarveldisins. Á síðasta ári hleypti hann heimdraganum og spilaði með Hamri í 1. deild. Tímabilið var þó vonbrigði vegna meiðsla framan af en í 10 leikjum í úrslitakeppninni í vor skilaði hann að meðaltali 5,5 stigum, 6 fráköstum og 10 framlagspunktum á 18 spiluðum mínútum. Óli hefur því aflað sér nokkurrar reynslu og fær í vetur tækifæri til að bæta enn í sarpinn og væntum við mikils af honum.

Sá þriðji er Ísar Freyr Jónasson, bakvörður, nýorðinn 19 ára. Ísar er KR-ingur að upplagi sem æfði einnig frjálsar með ÍR áður en hann byrjaði í körfunni. Á síðasta ári æfði hann með unglinga- og meistaraflokki KR og spilaði með KV í 2. deild. Hann stefnir á að reyna við háskólaboltann í USA og vill undirbúa sig sem best með því að æfa og spila á Selfossi, þar sem einmitt er gott umhverfi fyrir unga leikmenn með slík framtíðarplön.

Hjartanlega velkomnir um borð, piltar!