Karlalið Selfoss byrjaði tímabilið með stæl í gærkvöldi, 3. október, þegar þeir unnu góðan sigur á Þór Akureyri á heimavelli. Góð stemning var á leiknum og fengu áhorfendur að sjá fullt af flottum tilþrifum frá heimamönnum.
Gestirnir frá Akureyri byrjuðu leikinn örlítið betur og virkuðu vel stemmdir í leikinn. Selfyssingar voru þó ekki lengi að koma sér á sama plan og um miðjan fyrsta leikhluta var staðan nánast jöfn. Staðan eftir fyrsta leikhluta jöfn, 30-30. Greinilegt var að það stefndi í stigamikinn leik. Annar leikhlutinn var ekki ólíkur þeim fyrsta þar sem Þórsarar byrjuðu betur og Selfyssingar eltu. Selfyssingum tókst þó að komast yfir í lok annars leikhluta og leiddu inn í hálfleikinn með fjögurra stiga forskoti, 61-57.
Heimamenn byrjuðu seinni hálfleikinn betur og náðu að halda Akureyringunum í hæfilegri fjarlægð. Eftir því sem leikslok nálguðust jókst forskotið hjá heimamönnum og staðan í leikslok 114-97.
Það sem einkennir Selfossliðið þetta tímabilið er ungur aldur liðsins og mætti með sanni segja að þeir ungu hafi svarað kallinu. Sjö leikmenn sem spiluðu með liðinu í kvöld eru uppaldir Selfyssingar sem hafa skilað sér upp úr yngri flokkastarfinu, sem er einstaklega ánægjulegt að sjá. Allir íslensku leikmenn liðsins æfa eða æfðu með FSu akademíunni. Leiktíminn dreifðist vel á milli leikmanna en allir leikmenn liðsins komu inn á fyrir hálfleik. Allir voru tilbúnir í verkefnið og nýttu mínútur sínar vel.
Stigaskorið hjá Selfyssingum dreifðist vel á milli leikmanna en 10 leikmenn af þeim 12 sem voru á skýrslu skoruðu í leiknum.
Follie Bogan átti stórleik í sínum fyrsta leik með félaginu og leiddi liðið í stigaskori (40), fráköstum (9), stoðsendingum (5) og stolnum boltum (2). Aðrir atkvæðamiklir menn voru Vojtéch Novák með 17 stig og 7 fráköst, Ísak Júlíus Perdue með 13 stig, Tristan Máni Morthens með 10 stig og Ari Hrannar Bjarmason með 10 stig.
Næsti leikur Selfyssinga er í Borgarnesi föstudaginn 11. október á móti Skallagrími.