Tveir leikmenn Selfoss halda stöðu sinni í æfingahópi U18 ára landsliðs drengja, sem undirbýr sig fyrir bæði NM og EM í sumar. Æft var í stærri hópi um jólin en skorið niður eftir þá törn. Næst æfir hópurinn helgina 17. – 19. febrúar og að þeirri törn lokinni verður í byrjun mars valinn endanlegur 16 manna landsliðshópur.
Leikmenn Selfoss eru þeir Styrmir Jónasson og Birkir Hrafn Eyþórsson, en þeir eru báðir í yngri kantinum í U18, Styrmir 17 ára f. 2005 og Birkir 16 ára f. 2006, og þeir eiga því enn eftir 1 og 2 ár í þessum landsliðshópi.
Einnig er gaman að geta þess að fleiri leikmenn úr körfuboltaakademíunni okkar eru í U18 landsliðshópunum, í drengjahópnum þeir Tómas Valur Þrastarson úr Þór og Lúkas Aron Stefánsson, Hvergerðingur sem leikur með ÍR.
Þjálfari drengjaliðsins er Lárus Jónsson og honum til aðstoðar eru Nebojsa Knezevic og Davíð Arnar Ágústsson.
Í stúlknahópnum eru þær Valdís Una Guðmannsdóttir, Hrunastúlka sem leikur með Hamri, og Hildur Björk Gunnsteinsdóttir úr Þór.
Þjálfari stúlknaliðsins er Benedikt Guðmundsson og aðstoðarþjálfarar þau Baldur Már Stefánsson og Lovísa Björt Henningsdóttir.
Selfoss-Karfa óskar þessum leikmönnum innilega til hamingju með valið.