Það eru ekki bara unglingarnir okkar sem hópast þessa dagana að yngri landsliðum Íslands, því nú hafa tveir þjálfarar Selfoss-Körfu verið ráðnir í þjálfarateymi Körfuboltasambandsins.

Þetta eru þeir Karl Ágúst Hannibalsson og Christopher William Caird og eru þeir nýir aðstoðarþjálfarar Ágústs Björgvinssonar með U16 ára landslið drengja.

Karl Ágúst hefur um árabil verið meginstoðin í uppbyggingu yngriflokkanna á Selfossi og hefur að auki langa reynslu sem þjálfari hjá öðrum félögum. Kalli er yfirþjálfari yngriflokka Selfoss-Körfu og löngu viðurkenndur sem einn öflugasti barna- og unglingaþjálfari landsins. Það er því verðug og tímabær vegsemd að sambandið nýti krafta hans við landsliðin. Karl þjálfaði meistarflokk karla á Selfossi hluta úr tímabili, var yfirþjálfari Körfuboltaakademíunnar við FSu og stjórnaði bæði drengja- og stúlknaflokksliðum akademíunnar. Hann er íþróttafræðingur að mennt og hefur starfað sem íþróttakennari við grunnskóla árum saman.

Chris er nú á þriðja ári sínu sem aðalþjálfari meistaraflokks karla á Selfossi, auk þess að stjórna  unglingaflokki og þjálfa minnibolta 10 ára hjá félaginu. Þá er Chris yfirþjálfari í Körfuboltaakademíu félagsins við FSu. Hann hóf feril sinn sem nemandi við akademíuna en síðan lá leið hans til Bandaríkjanna þar sem hann stundaði nám á körfuboltaskólastyrk og lauk prófum í umhverfisverkfræði. Eftir heimkomuna til Íslands lék hann með FSU í úrvalsdeild, síðan Tindastóli auk þess að þjálfa yngri aldursflokka á Sauðárkróki.

Selfoss-Karfa óskar þessum úrvalsþjálfurum sínum innilega til hamingju með nýja hlutverkið.