Selfoss hóf keppnistímabilið í unglingaflokki í Hertz hellinum í Reykjavík í gærkvöld með 12 stiga sigri á góðu ÍR-liði, sem hefur m.a. á að skipa 4 leikmönnum úr Dominosdeildarliði þeirra Breiðhyltinga.

Selfoss byrjaði af miklum krafti og forystan fór í tveggja stafa tölu um miðjan fyrsta fjórðung. En ÍR sneri við blaðinu seinni 5 mínúturnar og leiddi með 1 stigi þegar leikhlutanum lauk. Varnarleikur Selfossliðsins varð þéttari í öðrum hluta, ÍR skoraði aðeins 9 stig í leikhlutanum og Selfoss leiddi 30-36 í hálfleik.

Seinni hálfleikur varð sveiflukenndur, leikmenn beggja liða settu erfið skot, en Selfoss hélt velli með góðum varnarleik og vann að lokum 70-82.

Sveinn Búi Birgisson var stigahæstur í Selfossliðinu með 35 stig, Gunnar Steinþórsson kom næstur með 20 stig, Owen Young skoraði 10, Finley Moss 8, Gregory Tchernev-Rowland 4, Aljaz Vidmar 3 og Benjamín Kjartansson, sem er nýorðinn 16 ára, skoraði 3 stig.

Nokkra vantaði í Selfossliðið, m.a. vegna veikinda, og því var liðið þunnskipað með aðeins 7 leikmenn í þessum fyrsta leik.