Unglingaflokkur fór um daginn vestur á land og atti kappi við ÍA/Skallagrím. Sameinaðir Vestlendingar mættu til leiks með mun sterkara lið en heimsótti okkur á Selfoss skömmu fyrr, og tapaði þá stórt, og lét okkar menn nú sannarlega hafa fyrir hlutunum, alveg fram undir lok leiks, en síðustu tvær mínúturnar sigldu Sunnlendingar þessu til hafnar og unnu 77-85.

Leikmenn ÍA/Skallagríms voru sjóðheitir fyrir utan þriggjastigalínuna og settu líka niður skot úr erfiðum færum við körfuna og héldu sér þannig inni í leiknum. Það setti okkar lið þó ekki út af sporinu, strákarnir héldu einbeitingu allan tímann og liðsbragurinn var mun betri en oftast áður, samskipti góð milli manna í pressuvörn á hálfum velli. Mesti vandinn var að stíga út í löngu fráköstunum sem komu eftir þriggjastigaskot andstæðinganna.

Í sókninni var gott flæði á boltanum og strákarnir duglegir að stinga sér í eyðurnar sem þá mynduðust. Bjössi og Arnar voru sérlega góðir í þessu og naskir að finna opnu skytturnar fyrir utan þegar þeir drógu til sín hjálparvörnina. Það komu tímabil sem strákarnir okkar nýttu ekki opnu skotin en þeir létu það ekki trufla einbeitinguna, spiluðu af krafti til loka og unnu leikinn eins og áður segir með 8 stigum.

Björn Ásgeir var stigahæstur með 33 stig, Arnór Bjarki skoraði 17, Hlynur Snær 12, Arnar Dagur 6, Orri 6, Sigurjón 5, Páll 5 og Viktor 3 stig.