Unglingaflokkur mætti Fjölni B á útivelli í gærkvöldi og gerði góða ferð, tókst með fínu liðsframlagi að vinna 71-79.
Við mættum fáliðaðir til leiks, en tveir leikmenn voru veikir og aðrir tveir uppteknir við annað, þannig að einungis 6 strákar klæddu sig í búning. Ljóst var að erfitt verkefni færi í hönd því í Fjölnisliðinu voru nokkrir strákar úr meistaraflokksliði félagsins.
Okkar menn létu þetta ekki slá sig út af laginu, héldu sig við leikskipulagið og börðust eins og ljón. Strákarnir fengu fljúgandi start þegar Palli setti þrjá þrista í röð úr opnum færum eftir gegnumbrot og gott boltaflæði. Skýringar á því að munurinn var ekki meiri en 8 stig eftir fyrsta leikhluta eru að finna í fráköstunum, en Fjölnir fékk 2-3 skot í hverri sókn.
Þetta reyndist vera aðalvandi liðsins allan leikinn og fyrir vikið leiddi heimaliðið með 4 stigum eftir þriðja fjórðung, ásamt því að menn kólnuðu í skotunum á köflum í 2. og 3. leikhluta. Boltinn hélt þó áfram að ganga manna á milli og liðið nýtti völlinn vel til að teygja á vörn andstæðinganna þannig að glufur mynduðust fyrir Bjössa og Ella að stinga sér í gegn og upp að körfunni – og í framhaldinu að opna skotfæri fyrir Orra og Arnór þegar vörnin féll saman.
Eftir að Fjölnisstrákar settu nokkur erfið skot steig Bjössi upp og negldi niður stórum þriggjastigaskotum og varði þannig forystuna og með góðum fráköstum frá Orra og Palla, snöggum fyrstu sendingum á Arnór í hraðaupphlaup náðu strákarnir að tryggja sigurinn af vítalínunni.
Sigaskor Selfoss/Hamars/Hrunamanna: Björn Ásgeir 29, Arnór Bjarki 15, Páll Ingason 13, Elvar Ingi 11, Orri 10 og Viktor 1 stig.