Lið Selfoss/Hamars/Hrunamanna mætti sameiginlegu liði Keflavíkur og Grindavíkur suður með sjó sl. laugardag á Íslandsmóti unglingaflokks. Við getum sannarlega verið stolt af okkar liði, sem lagði sig mjög fram og lék vel lengst af, þrátt fyrir að missa aðeins tökin í lokin og tapa leiknum 88-70.

Keflavík/Grindavík er sennilega besta U20 liðið sem við höfum mætt í vetur, en þar voru m.a. innanborðs alvanir úrvalsdeildarleikmenn úr Grindavík, þeir Nökkvi Nökkvason og Ingvi Guðmundsson, sem er nýkominn heim aftur eftir að hafa reynt sig í háskólaboltanum í USA. Á móti vantaði 3 byrjunarliðsmenn í okkar lið, þar á meðal einn okkar allra besta varnarmann, en bæði Arnór Bjarki og Viktor voru á sama tíma iðnir við kolann á Egilsstöðum með drengjaflokki, eins og sagt er frá í annarri helgar-frétt hér á síðunni, og Páll Ingason er meiddur. Í þeirra stað komu tveir 15 ára piltar inn í liðið, Hrunamennirnir Eyþór Orri Árnason og Aron Ragnarsson, og Hamarsmaðurinn Sigurður Dagur, en hann hefur í vetur leikið með b-liði drengjaflokks FSU-Akademíu. Þetta var því frumraun þeirra þriggja með unglingaflokki og sjálfgefið að liðsblandan var fyrir vikið ekki fullhrærð. En þetta eru hæfileikaríkir strákar sem vita sínu körfuboltaviti og eru fljótir að aðlagast.

En að leiknum. Við spiluðum frábæra vörn fram í miðjan fjórða fjórðung og sóknarleikurinn var hraður og markviss svo góðar möguleiki var á sigri, enda leiddum við með 4 stigum þegar 8 mínútur voru eftir. En þá breyttist takturinn, skotin okkar hættu að rata í körfuna og við það mótlæti fór hausinn að síga heldur mikið, einbeitingin tapaðist, menn voru seinir aftur og Kef/Gri. refsaði með góðu (slæmu fyrir okkur) áhlaupi. Þrátt fyrir tvö leikhlé tókst ekki að berja í brestina og heimaliðið sigldi framúr í lokin.

Þessi leikur var mjög lærdómsríkur fyrir strákana okkar; þeir sýndu sjálfum sér og öðrum að með fullri einbeitingu í 20 mínútur standast þeir öllum öðrum liðum fyllilega snúning og geta unnið hvern sem er. Flottar framfarir hjá þessu efnilega liði.

Björn Ásgeir var atkvæðamestur okkar manna með 25 stig, Elvar Ingi skoraði 15, Sigurður Dagur 8, Aron 8, Sigurjón Ívarsson 7, Eyþór Orri 5 og Orri Ellerts. 2 stig.